Assýringar Balkanskaga

Greinar

Fyrir þremur árþúsundum voru Assýringar plága Miðausturlanda. Með hléum voru þeir öldum saman skelfing fólks í fljótalandi Efrat og Tígris. Fólk hvítnaði, þegar þeir voru nefndir, svo grimmir voru þeir, þegar þeir fóru um og kvöldu alla, sem þeir fundu.

Heimildir um æði Assýringa er ekki aðeins að finna í textum frá þjóðum, sem urðu fyrir barðinu á þeim, heldur eru þær einnig staðfestar í áletrunum þeirra sjálfra. Þar gorta þeir sig af illverkum sínum og lýsa þeim af óhugnanlega sjúklegri nákvæmni.

Allar tilraunir nágrannaþjóða til að hafa hemil á Assýringum fóru út um þúfur. Þeir risu alltaf upp aftur eftir ósigra sína. Það var ekki fyrr en Medar og Babýlóníumenn tóku sig saman um að útrýma vandamálinu, að lagður var grunnur að friði í Miðausturlöndum.

Í veraldarsögunni hafa stundum verið til þjóðir, sem hafa verið nágrönnum sínum til meiri vandræða en títt er um aðrar þjóðir. Þannig stóð Evrópu ógn af Húnum og Mið-Ameríku af Aztekum og þannig hafa Serbar öldum saman verið meginplága Balkanskaga.

Habsborgarar og Ottómanar skiptu löngum með sér skyldum að halda friði á þessu svæði, einkum með því að halda Serbum í skefjum. Þegar gömlu stórveldin hrundu snemma á þessari öld, fóru Serbar aftur á stúfana í assýrískri umgengni við nágranna sína.

Skelfingin, sem Serbar hafa á síðustu árum stráð í kringum sig, er ekki einum Slobodan Milosevic að kenna. Hann nýtur stuðnings meirihluta þjóðar sinnar og hefur ítrekað fengið hann staðfestan. Serbar vilja koma fram við nágranna sína á assýrískan hátt.

Þegar fjallað var um voðaverk Serba í Bosníu og þegar fjallað er nú um voðaverk þeirra í Kosovo, er viðkvæði brottfluttra Serba jafnt sem heimaalinna, að Vesturveldin séu að hefta svigrúm Serba og koma í veg fyrir eign þeirra á sagnfræðilega heilögu landi þeirra.

Aldrei láta þeir, hvort sem þeir búa á Íslandi eða annars staðar í heiminum, í ljósi nokkurn skilning á örlögum fólksins, sem verður fyrir trylltu æði Serba, þegar þeir berja, nauðga, brenna og taka af lífi. Í hugum alls þorra þeirra helgar tilgangurinn öll meðöl, öll.

Óeðli Serba liggur ekki í litningum, heldur er það drukkið með móðurmjólkinni kynslóð eftir kynslóð. Það verður aðeins stöðvað með skilyrðislausri uppgjöf þeirra, hernámi alls landsins og endurmenntun heilla kynslóða eins og í Þýzkalandi eftir heimsstyrjöldina.

Þar sem Vesturveldin hafa glatað hæfninni til að heyja stríð og mega raunar ekki lengur sjá blóð, er þessi kostur ekki lengur í stöðunni. Þess vegna eru loftárásir Atlantshafsbandalagsins gagnslitlar og hafa aðeins hleypt enn verra blóði í hina hatursfullu þjóð.

Hér í blaðinu var fyrirfram varað við þessu stríði, af því að Vesturveldin hafa ekki bein í nefinu til að heyja það í botn. Bent var á skárri kost í vondri stöðu að loka landamærunum og vernda þá, sem eru svo heppnir að vera utan þeirra, en láta hina um örlög sín.

Hins vegar er fráleitt, að Vesturlönd eigi framvegis nein viðskipti eða önnur samskipti við Serbíu eða Serba, hvort sem það eru íþróttamenn eða aðrir. Fráleitt er að veita neinum einasta Serba landvist utan þess helvítis, sem þeir hafa sjálfir framleitt á Balkanskaga.

Þótt Vesturveldin hafi glatað getunni til hernaðar gegn illum öflum, hafa þau nægan mátt til að loka Assýringa nútímans inni í hatri sínu og forneskju.

Jónas Kristjánsson

DV