Einokun er endastöð

Greinar

Þótt Baugur sé kominn með rúmlega helmings markaðshlutdeild eftir kaupin á verzlunarkeðjunni 10-11, leiðir það ekki til hækkaðs vöruverðs í náinni framtíð. Hins vegar er ástæða til að óttast þessa þróun í átt til fákeppni, þegar litið er lengra fram á veginn.

Einu sinni hafði Hagkaup forustu um lækkun vöruverðs og lækkun verðbólgu á Íslandi. Síðan tók Bónus við þessu hlutverki og nú síðast hafa 10-11 búðirnar gegnt mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Nú eru allar þessar keðjur komnar undir einn hatt Baugs.

Fyrir utan stendur Kaupás með tæplega fjórðungs markaðshlutdeild í keðjunum Nóatúni, 11-11 og KÁ. Tvær stærstu keðjurnar hafa þannig rúmlega þrjá fjórðu hluta alls matvörumarkaðarins og gætu hæglega gert heiðursmannasamkomulag um hóf í samkeppni.

Þetta þrengir kost stjórnvalda. Matvöruverzlunin í landinu hefur á undanförnum áratug verið mikilvægasti bandamaðurinn í lækkandi verðbólgu, vaxandi kaupmætti og auknum vinnufriði í landinu. Snúist dæmið við, verða stjórnvöld hengd, en ekki Baugur.

Neytendur eru á sama báti og stjórnvöld í þessu efni. Ef Baugur og Kaupás fara að gæta hófs í samkeppni sín í milli, sem er tiltölulega einföld ákvörðun tveggja aðila, leiðir það til kaupmáttarskerðingar, sem kemur harðast niður á þeim, sem flesta hafa munna að seðja.

Vandi framleiðenda er annar og meiri. Þeir verða að sæta því, að tveir aðilar ákveði nánast einhliða, hvor út af fyrir sig eða sameiginlega, hvað varan eigi að kosta til Baugs og Kaupáss. Óhjákvæmilegt er, að fákeppnin leiðir til grisjunar í landbúnaði og matvælaiðnaði.

Við erum vitni að heimsþekktu ferli í samskiptum fyrirtækja. Viðskiptafrelsi leiðir til harðnandi samkeppni, sem fyrirtæki svara með samruna til að auka hagkvæmni og losna við kostnaðarsama keppinauta. Samkeppnin breytist í fákeppni og á endanum í einokun.

Síðustu stig ferlisins valda stjórnvöldum, neytendum og framleiðendum staðbundnum vanda, þótt þau séu á ýmsan annan hátt hagkvæm. Þessi staðbundnu vandamál leiða til þess, að stjórnvöld reyna af veikum mætti að spyrna við fótum með lögum og reglugerðum.

Stjórnvöld eiga erfitt með að finna vatnaskilin, enda eru þau breytileg eftir aðstæðum hverju sinni. Spurningin er, hvenær er komið að þeim stað, að vötn renna ekki lengur í átt til hagsældar stjórnvalda og neytenda og fara að renna í öfuga átt við þessa mikilvægu hagsmuni.

Bandarísk stjórnvöld hafa gengið harðast stjórnvalda fram í viðnámi gegn þessu ferli. Þannig var bandaríska símafyrirtækið klippt niður í margar einingar og þannig á ríkið nú í endalausum málaferlum gegn fjölbreyttri einokunaráttu hugbúnaðarrisans Microsoft.

Hér á landi er viðnámið mildara og losaralegra. Óljóst er, hvað Samkeppnisstofnun getur gert í málinu og hvað henni ber í raun að gera. Hún getur svo sem lýst áhyggjum sínum eins og allir hinir, stjórnvöld, neytendur og framleiðendur, og látið að mestu þar við sitja.

Það veikir möguleika stjórnvalda að gera neitt í málinu, að ekki er hægt að reikna með skaðlegum áhrifum af kaupum Baugs á 10-11 búðunum í náinni framtíð. Ef um skaðleg áhrif verður að ræða, munu þau koma svo seint fram, að ekki er þá hægt að grípa í taumana.

Innri þverstæða samkeppninnar er, að hún á sér framtíðarmarkmið og náttúrulega endastöð í einokun og að við vitum ekki, hvort eða hvernig á að bregðast við.

Jónas Kristjánsson

DV