Lífeyri sóað í byggðagildru

Greinar

Kaup staðbundinna lífeyrissjóða á hlutafé í fallvöltum fyrirtækjum staðarins er enn einn hnykkurinn á skrúfgangi vítahrings byggðagildrunnar. Nú er röðin komin að árás byggðastefnunnar á lífeyrissparnað þeirra, sem eru svo óheppnir að búa í halloka sjávarplássum.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hefur fjárfest í Vinnslustöðinni, sem stendur höllum fæti. Lífeyrissjóður Vestfjarða hefur fjárfest í Básafelli, sem stendur höllum fæti. Ef þessi fyrirtæki falla, rýrna tekjur margra sjóðfélaga um leið og verðgildi ævisparnaðar þeirra rýrnar.

Það er skylda lífeyrissjóða að taka litla áhættu og dreifa þeirri áhættu, sem þeir taka. Staðbundnir lífeyrissjóðir eiga sízt af öllu að fjárfesta í heimafyrirtækjum, því að sveiflur í atvinnulífi staðarins fara saman við sveiflur í efnahag staðarfólks, sem á lífeyrinn.

Lífeyrissjóður, sem fjárfestir sérstaklega í heimabyggð, setur of mörg egg í veikbyggða körfu. Hann vanrækir lífeyrishagsmuni sjóðfélaga í þágu byggðapólitískra hagsmuna, sem ekki eru á verksviði lífeyrissjóða. Slíkur sjóður misnotar ævisparnað almennings.

Byggðastefnan ræðst með fjölbreyttum hætti að hagsmunum íbúa sjávarplássa, sem eru á undanhaldi. Sveitarfélög nota útsvarstekjur til að fjárfesta í fallvöltum fyrirtækjum í björgunarskyni í stað þess að nota þær til að bæta þjónustu við fólk og gera líf þess þægilegra.

Sagan sýnir, að slíkar fjárfestingar hafa tilhneigingu til að gufa upp og verða að engu. Íbúarnir hafa jafnframt farið á mis við þægindi, sem fallið hafa í skaut íbúum sveitarfélaga, sem ekki hafa tekið þátt í vonlitlum aðgerðum til björgunar fallvöltum fyrirtækjum.

Staðarfólk er jafnframt hvatt til að leggja sjálft fram hlutafé til þessara sömu, fallvöltu fyrirtækja. Víða um land hefur verið skorin upp herör til stuðnings fyrirtækjum, sem talin eru hornsteinar atvinnulífsins. Þetta hlutafé getur fólk ekki notað fyrir sjálft sig.

Með áróðri fyrir bjartsýnisórum eru íbúar þessara sveitarfélaga hvattir til að festa fé sitt í vönduðum og dýrum íbúðarhúsum, sem síðan rýrna að verðgildi og verða að lokum verðlaus með öllu, af því að fólksflótti hefur framkallað offramboð af lausu íbúðarhúsnæði.

Ekki skiptir máli, hvað var til á undan, eggið eða hænan. Aðalatriðið er, að allir þessir þættir snúast á sömu sveif við að herða skrúfganginn í vítahring byggðagildrunnar. Samanlagt magna þeir óhagræði fólks af því að búa á stöðum, þar sem byggðastefna ríkir.

Peningar fólks brenna í óseljanlegum íbúðarhúsum, í verðlausu hlutafé þess í hallærisfyrirtækjum, í útsvarspeningum, sem hverfa í þessum sömu fyrirtækjum og nú síðast einnig í lífeyrissjóðum, sem sóa fé til að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, sem verða verðlaus.

Dæmi af hinum endanum er Reykjavík, þar sem engum dettur lengur í hug að halda uppi Bæjarútgerð og menn yppta bara öxlum, ef fyrirtæki eða fólk flytst til sveitarfélaganna í nágrenninu eða út á land. Peningum Reykvíkinga er ekki brennt á altari byggðastefnu.

Kostnaðarsöm verndun fyrirtækja og byggða, sem standa höllum fæti, gleypir alla peninga, sem í hana er kastað. Hún er fen, sem magnar vandann, sem átti að milda. Hún dregur úr getu fólks til að bjarga sér undan á flótta. Hún er byggðagildra, sem lokar fólk inni.

Með því að misnota staðbundna lífeyrissjóði til að soga sparifé staðarfólks inn í vítahring byggðagildrunnar, er stigið stærsta skrefið til siðleysis í byggðastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV