Engin lausn án heilaþvottar

Greinar

Þegar Þýzkaland lá í rústum eftir síðari heimsstyrjöldina, ákváðu Vesturveldin og þeir, sem tóku völd í vesturhluta landsins eftir stríð, sameiginlega, að í senn yrðu Vestur-Þjóðverjar heilaþvegnir og Vestur-Þýzkaland yrði endurreist eins og Vestur-Evrópa öll.

Heilaþvotturinn fólst einkum í að stimpla lýðræðishyggju í fólk. Hann gekk lengst í nýjum her Vestur-Þýzkalands, sem nú er her sameinaðs Þýzkalands. Þar voru mönnum ekki síður kennd borgaraleg hugmyndafræði lýðræðis en hefðbundin hermennska.

Árangurinn var frábær. Þjóðverjar tóku mikilvæga stöðu í hópi vestrænna lýðræðisþjóða, höfðu frumkvæði að félagslegum markaðsbúskap og urðu að lokum feiknarlega ríkir og voldugir. Enginn efast lengur í alvöru um, að Þjóðverjar séu sannfærð lýðræðisþjóð.

Lakar tókst til með Japani, enda kom MacArthur hershöfðingi í veg fyrir hliðstæðan heilaþvott þar. Lögð var meiri áherzla á að koma upp formum lýðræðis en innihaldi. Japanir héldu áfram að trúa lygum um stríðið og halda þeim í kennslubókum að æskunni.

Þess vegna hefur Japönum ekki tekizt að finna sér trausta stöðu í umheiminum eins og Þjóðverjar. Japanir eru enn hataðir af nágrannaþjóðunum, sem eru dauðhræddar við þá. Þeir geta ekki tekið pólitíska forustu í sínum heimshluta eins og Þjóðverjar geta.

Í báðum tilvikum byggðist breytingin á skilyrðislausri uppgjöf þeirra, sem báru ábyrgð á óförunum. Ekkert slíkt er uppi á teningnum í Serbíu. Þar hefur Slobodan Milosevic raunar unnið hálfan sigur, því að niðurstaðan er honum mildari en Rambouillet-samkomulagið.

Hann hefur losnað við meirihluta íbúa Kosovo úr landi. Von Atlantshafsbandalagsins um jafntefli í stríðinu byggist á, að allur þorri þessa fólks treysti sér til að hverfa aftur til fyrri heimkynna sinna. En Vesturveldin hafa enga aðstöðu til heilaþvottar á Serbum.

Með tilvísun til sagnfræðinnar er heimskulegt af ráðamönnum Vesturlanda að tönnlast á því, að ekki verði veitt nein aðstoð við uppbyggingu í Serbíu fyrr en Milosevic sé farinn frá. Það er botnlaus misskilningur, að Milosevic einn sé vandamál umheims Serbíu.

Það er þjóðin sjálf, sem er vandamál. Hún þarf á heilaþvotti að halda. Serbar eru rumpulýður Balkanskaga, sem hefur verið þar til vandræða öldum saman. Nú síðast hafa Serbar þúsundum saman vaðið um Kosovo sem morðingjar, nauðgarar og brennuvargar.

Það lagar ekki hugarástand Serba, þótt Milosevic fari frá völdum. Margir stjórnmálamenn landsins eru miklu trylltari en hann. Serbar munu nota vestræna peninga, en þeir munu ekki af sjálfsdáðum taka upp neinar vestrænar mannúðar- og vináttuhugsjónir.

Vesturveldin munu ekki hafa annað en vandræði af endurreisn árásar- og útþenslugjarnrar Serbíu, þegar fram í sækir. Forsenda þess, að Serbía verði til friðs í nánasta umhverfi sínu, er að þar fari fram hliðstæður heilaþvottur og í Þýzkalandi fyrir hálfri öld.

Einkum þarf að endurskrifa sagnfræði Serba, sér í lagi sagnfræði styrjalda þeirra í Slóveníu, Króatíu, Bosníu og Kosovo á síðasta áratug. Hreinsa þarf burtu lygarnar og setja inn sannleikann um ótrúlega mannvonzku þeirra, sem þar hafa komið fram fyrir hönd Serba.

Engin ástæða er til að kasta einni einustu evru í Serbíu án þess skilyrðis, að þjóðin verði heilaþvegin og gerð friðsöm og spök að vestrænum lýðræðishætti.

Jónas Kristjánsson

DV