Lærdómsrík hernaðarsaga

Greinar

Ríki eiga ekki að fara í þorskastríð með því að beita freigátum eins og múrbrjótum. Léttbyggð skip eru dæmd til að tapa árekstrastríði fyrir varðskipum, sem eru styrkt til siglinga innan um ísjaka. Þannig er sagnfræðin full af reynslu, sem getur nýtzt í nútímanum.

Einn merkasti lærdómur hernaðarsagnfræðinnar er, að ríki eiga ekki að fara í hálf stríð eða kvartstríð. Þau eiga annað hvort að fara í heil stríð eða ekki fara í stríð. Þannig áttu Aþeningar ekki að senda tíu herskip til hjálpar Korkýringum, heldur tvöhundruð eða ekkert.

Ríki, sem hafa ætlað sér með sýndarmennsku að spara sér að fara í stríð, hafa lent í að vera dregin stig af stigi út í fullt stríð, sem varð þeim mun dýrara en það hefði orðið, ef þau hefðu tekið slaginn strax. Þannig varð stríðið um Kosovo lengra en það þurfti að vera.

Það er gömul saga, að gróin og þreytt herveldi hafa ranglega ofmetið eina sérgrein hernaðar, venjulega einhverja aðra en landhernað. Í gamla daga var sjóhernaður talinn allra meina bót, en í seinni tíð hafa ráðamenn þreyttra risavelda tekið trú á lofthernað.

Þannig ímynduðu Aþeningar sér, að ósigrandi floti þeirra mundi þreyta landher Spartverja í Pelopsskagastríðinu. Þannig ímynduðu Rómverjar sér, að yfirburðafloti þeirra mundi þreyta landher Hannibals frá Karþagó. Báðir greiddu ímyndunina dýru verði.

Svipað var uppi á teningunum í aðdraganda heimsstyrjalda tuttugustu aldarinnar. Bretar töldu sér trú um, að þeir gætu teflt þær skákir án marktæks landhers, í fyrra skiptið með flota og í síðari skiptið með flugher. Því urðu þeir að heyja illa undirbúin stríð.

Sagan segir okkur, að stríð er jafn algengt og friður og að friður ver sig ekki sjálfkrafa. Það þarf að verja hann með viðbúnaði. Á þessu flöskuðu Vesturveldin í aðdraganda heimsstyrjalda tuttugustu aldarinnar, en unnu síðar kalda stríðið með því að halda vöku sinni.

Stríð byggjast á því, að oftast eru til ófullnægð herveldi, sem vilja komast ofar í goggunarröðina eða þenja út áhrifasvæðið. Reynslan sýnir, að blóðbaðið verður minna, ef þau eru stöðvuð í upphafi. Þannig áttu Vesturveldin að vera búin að stöðva Serbíu í tæka tíð.

Edward Grey í fyrri heimsstyrjöldinni og Neville Chamberlain í hinni síðari töldu sér og öðrum trú um, að ófullnægða útþenslumenn mætti hafa ofan af villu sinni með þrúkki í stíl kjarasamninga. Þessa villu hafa Vesturveldin endurtekið í tvígang á Balkanskaga.

Ronald Reagan vann hins vegar kalda stríðið með því að yfirkeyra Sovétríkin í viðbúnaði. Þau hrundu af því að Reagan hafði hækkað kostnað þeirra við að leika hlutverk heimsveldis. “Stjörnustríð” Reagans leiddi til þess, að kalda stríðinu lauk án blóðsúthellinga.

Sagan segir líka, að sjónhverfingar vinna ekki stríð. Krústjov varð að gefa eftir í Kúbudeilunni, af því að Kennedy skoðaði spilin á hendi Krústjovs og þau reyndust vera hundar. Þessi reynsla kom Vesturveldunum ekki að gagni í þrúkkinu við Serbíu á Balkanskaga.

Mánuðum og misserum saman höfðu Vesturveldin í hótunum við Serbíu út af yfirgangi hennar í Bosníu og síðan Kosovo. Milosevic Serbíuforseti taldi jafnan, að þetta væru orð án innihalds. Hann reyndist lengst af hafa rétt fyrir sér og gekk sífellt lengra á lagið.

Af þessu má ráða, að stórveldisdagarnir séu taldir, þegar ríki má ekki lengur sjá blóð sinna manna. Það er íhugunarefni fyrir Vesturveldin, einkum Bandaríkin.

Jónas Kristjánsson

DV