Atvinnulaus Norður-Víkingur

Greinar

Að mati Atlantshafsbandalagsins, varnarliðsins á Keflavíkurvelli og ríkisstjórnar Íslands eru hryðjuverk róttækra umhverfissinna einn alvarlegasti ófriður, sem getur steðjað að Íslendingum á næstunni. Þeir hafa sameinazt um heræfingu gegn þessum vágesti.

Róttækur utanríkisráðherra okkar kann að telja, að siga þurfi varnarliðinu á þá tvo þriðju hluta þjóðarinnar, sem eru andvígir uppistöðulóni á Eyjabökkum. Aðrir telja líklegra, að vondu kallar heræfingarinnar séu einhverjir á borð við Paul Watson í Sea Shepherd.

Við megum samt ekki gleyma, að þeir, sem sökktu hvalbátum í Reykjavíkurhöfn, komu til landsins í farþegaflugi um Keflavíkurvöll. Við megum heldur ekki gleyma, að Watson kom hingað sjálfur til að svara til saka, en stjórnvöld höfðu þá ekki lengur áhuga.

Paul Watson er vandræðamaður, en hann getur seint orðið óvinur þjóðarinnar númer eitt. Stjórnvöld hafa játað það sjálf með því að vilja ekki halda honum í fangelsi. Óvinir þjóðarinnar eru á allt öðrum stöðum í litrófinu og allra sízt á róttæka umhverfiskantinum.

Ef ígildi Watsons á vegum ígildis Sea Shepherd vildi vinna hryðjuverk hér á landi, er einfaldast fyrir stjórnvöld að senda yfirlögregluþjóninn í Reykjavík til að taka hann fastan. Sá er þrautþjálfaður í að taka úr umferð ýmsa þá, sem veifa spjöldum á tyllidögum.

Ef yfirlögregluþjónninn í Reykjavík nægir ekki, má senda sýslumanninn í Rangárþingi á vettvang, enda er hann sérfræðingur í að ná upp vafasömum fánum, sem róttækir umhverfissinnar hafa komið fyrir í uppistöðulónum. Þar með ættum við að geta slakað okkur.

Heræfingin Norður-Víkingur á vegum Atlantshafsbandalagsins, varnarliðsins á Keflavíkurvelli og ríkisstjórnar Íslands lyktar hins vegar að krumpuðum ranghugmyndum um lífið og tilveruna. Hún sýnir, hvað atvinnulitlir herforingjar geta látið sér detta í hug.

Íslandi stafar hætta af kjarnorkuslysum austur í Rússlandi, af eyðingu ozon-lagsins og hitabreytingum í andrúmsloftinu. Íslandi stafar hætta af flutningi úrgangsefna með hafstraumum frá Sellafield og úr ruslahaugum í hafinu frá úreltum kjarnorkuverum.

Öll sú hætta, sem fræðilega getur steðjað að Íslandi á næstu árum, stafar af aðgerðum róttækra stóriðjumanna og herforingja víða um heim, en engin af aðgerðum róttækra umhverfissinna. Þáttakendur Norður-Víkings kunna engin ráð við raunverulegum hryðjuverkum.

Mikilvægt gæti verið að æfa viðbrögð við dauðum fiski, sem flýtur upp um allan sjó vegna eiturefna í straumum. Mikilvægt gæti verið að æfa viðbrögð við stórflóðum á landi vegna skemmda á stíflugörðum af völdum eldgosa, hraunrennslis og jarðskjálfta.

Janiver Solana, David Architzel og Halldór Ásgrímsson eru ekki að æfa aðgerðir til að milda áhrif róttækra umhverfishryðjuverka. Þvert á móti eru þeir að æfa aðgerðir gegn ímyndaðri hættu af völdum þeirra, sem vara okkur við hryðjuverkum gegn umhverfinu.

Í bezta lagi er heræfingin Norður-Víkingur vandræðagangur atvinnulítilla og illa gefinna herforingja og í versta lagi er hún yfirlýsing um illa krumpuð viðhorf til lífsins og tilverunnar. Hvort tveggja er málsaðilum til álitshnekkis, sem rétt er að hafa í flimtingum.

Miklu ódýrara og einfaldara er fyrir Janiver, David og Halldór að fara til Kaliforníu og skiptast þar á vöktum um að fylgjast með ferðum og hátterni Pauls.

Jónas Kristjánsson

DV