Pirringsgildi óþekktarorma

Greinar

Leiðtogar vesturveldanna og einkum Bandaríkjanna leggja mikla áherzlu á að sleikja fýluna úr ráðamönnum Rússlands með því að fjölyrða um mikilvægi landsins og leiðtoga þess í heimsmálunum. Þeir hafa gert Rússland að heiðursfélaga í klúbbi sjö helztu iðnríkja heims.

Rússland hefur ekki efnahagsburði til að verða áttunda ríkið í þessum hópi. Það hefur raunar ekki lengur burði til að vera heimsveldi, því að vígvélar þess hafa lamazt vegna þjófnaðar og skorts á viðhaldi. Rússland hefur breytzt í betlara fyrir dyrum alþjóðabanka.

Rússland getur ekki einu sinni komið hermönnum til Kosovo, af því að fyrrverandi leppríki þess í Varsjárbandalaginu sáluga neita því um rétt til yfirflugs. Rússland varð að flytja 200 hermenn frá Bosníu til Kosovo til að geta sagt, að Rússland væri með á taflborðinu.

Landinu er stjórnað af fársjúkum fyllirafti, sem magnar óreiðuna með því að ráða og reka ráðherra í tíma og ótíma. Glæpamenn hafa komizt yfir eignir ríkisins og mestan hluta þróunaraðstoðarinnar. Rússneska þingið er málfundaklúbbur, sem setur ekki lög.

Samt heimtar Rússland virðingu og fær hana í orði kveðnu. Það er ekki virðing af völdum ógnar, heldur virðing af völdum pirrings. Rússland ógnar ekki lengur neinum, en getur valdið ýmsum vandræðum, sem aðrir vilja forðast. Þetta heitir pirringsgildi á fagmáli.

Vesturveldin vilja, að Rússar reyni að hafa áhrif á Serba, þótt reynslan sýni, að það eru fremur Serbar, sem stjórna Rússum. Vesturveldin vilja, að Rússar styðji Rómarfrið nútímans og auðveldi vesturveldunum að innleiða vestræn gildi víðs vegar um heim.

Vesturveldin vilja draga úr biturð og reiði Rússlands með því að efla þess hag og sýna því virðingu. Hingað til hefur þetta ekki gengið upp. Rússland verður fátækara með hverjum deginum sem líður. Biturð Rússlands og reiði vex í sífellu og þar með pirringsgildi þess.

Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki, segir spakmælið, sem vesturveldin hafa að leiðarljósi í samskiptum við Rússland og ýmis önnur lönd, sem eru til vandræða, til dæmis Pakistan, sem hvað eftir annað hefur efnt til ófriðar á landamærum Indlands.

Til langs tíma litið kunna að gagnast þessar aðferðir við að beita sálgæzlu í heimsmálunum. Það hlýtur að minnsta kosti að vera markmiðið, því að skammtímagagnið hefur ekki reynzt vera mikið. Ef til vill verða menn smám saman fínir menn af fínimannsleik.

Slíkri sálgæzlu má líka beita við smærri lönd, sem hafa pirringsgildi. Norður í Atlantshafi er til dæmis stórauðugt eyríki, sem heimtar að fá að menga heiminn meira, þegar bláfátæk ríki lofa að menga hann minna, og æsir önnur ríki til að sýna hliðstætt ábyrgðarleysi.

Að hætti vesturveldanna má reyna að sýna slíku ríki með pirringsgildi þá virðingu að taka kvótaerfingjann, sem vill menga heiminn í þágu meintra austfirzkra stóriðjuhagsmuna, og gera hann að stjórnarformanni Evrópuráðsins í þeirri von, að mannasiðirnir leki inn.

Þegar óþekktarormurinn er orðinn háður fínimannsleik í ljóma sjónvarpsvéla, er hægt að reyna að breyta leiknum í raunverulega fínimennsku og segja honum, að eitt auðríkja heims geti ekki hagað sér gagnvart náttúrunni eins og það rambi á hengiflugi gjaldþrots.

Hvar sem skálkar eru heiðraðir, svo að þeir skaði ekki umheiminn, er brýnt, að þess sé sífellt krafizt, að þeir sýni fram á, að þeir séu virðingar verðir.

Jónas Kristjánsson

DV