Mömmubílskúrinn

Greinar

Sagt er, að pabba-bílskúrar séu fullir af rusli, en mömmu-bílskúrar séu auðir og hreinir. Þess vegna séu hinir síðarnefndu kjörnir staðir til að stofna bílskúrsfyrirtæki ungra tölvuáhugamanna. Þannig hafa undrafyrirtæki verið stofnuð í Ameríku og á Íslandi.

Miklar fjárfestingar eru ekki lengur forsenda vaxtar í atvinnulífinu. Gömlu, vélvæddu atvinnugreinarnar eru á undanhaldi fyrir hávaxtargreinum, þar sem fátt er áþreifanlegt. Tveggja manna bílskúrsfyrirtæki verður á fjórum árum að 140 manna hálaunafyrirtæki.

Danir eru gott dæmi um þjóð, sem á lítið af auðlindum, öðrum en þeim, sem búa í höfði fólksins í landinu. Þeir hafa í staðinn skarað fram úr í hugmyndaauðgi og kaupsýslu. Áður fyrr seldu þeir danska hönnun og nú selja þeir danska forritun af miklum krafti.

Kaupsýsla er kjarni málsins. Hún hefur sígildið umfram vaxtargreinar hvers tíma. Hún selur bíla, þegar þeir eru vaxtargreinin; tæknihönnun, þegar hún er vaxtargreinin; tölvuforritun, þegar hún er vaxtargreinin; umhverfisvernd, þegar hún er vaxtargreinin.

Þjóð, sem sameinar kaupsýslu og framleiðslu huglægra verðmæta í vaxtargreinum hvers tíma, er ofan á í lífinu. Þjóð, sem heldur verndarhendi yfir gömlum og úreltum atvinnugreinum á borð við landbúnað, fiskvinnslu og áliðnað er á undanhaldi í tilverunni.

Við sjáum af hreyfingu fyrirtækja milli landa, hvar stöðnunin er að halda innreið sína. Lélegar eru greinar, sem flýja frá Vesturlöndum til Japans. Verri eru greinar, sem flýja frá Japan til Suður-Kóreu. Verstar eru greinar, sem flýja frá Suður-Kóreu til Malasíu.

Þannig eru skipasmíðar og áliðnaður meðal þeirra greina, sem gefa minnst af sér, þótt fjárfesting sé mikil. Slíkar greinar flytjast til þróunarlandanna. Framleiðsla vélbúnaðar fer bil beggja og flyzt til nýríku þjóðanna. En framleiðsla hugbúnaðar er vestræn sem fyrr.

Við eigum að haga skólamálum okkar í samræmi við það, sem við höfum séð gerast í heiminum og sjáum vera að gerast. Við eigum að stórauka fræðslu á sviðum kaupsýslu og forritunar, hönnunar og umhverfismála, því að þetta eru vaxtargreinar nánustu framtíðar.

Því miður er skólakerfi okkar staðnað í fúski og leikjum Piagets, eins og komið hefur fram í fjölþjóðlegum samanburði. Með einkarekstri skóla eða með öðrum þeim hætti, sem hristir upp í skólakerfinu, þarf að gera skóla hæfa til að búa fólk undir líf í framtíðinni.

Við þurfum skóla, er skila frá sér fólki, sem þekkir kaupsýslu upp á sína tíu fingur; leysir forritunarvandamál eins og ekkert sé; hannar áþreifanlega og óáþreifanlega hluti á þann hátt, að allir vilja eiga; og kann að varðveita einstætt vistkerfi okkar fyrir stóriðju.

Með einni snjallri hugmynd er rifið upp úr engu fyrirtæki, sem veitir jafnmörgum vinnu og eitt stykki álver; borgar tvöfalt meira kaup en álverið; notar lítið af takmörkuðum auðlindum; kostar enga milljarða í fjárfestingu; og heimtar ekki, að Eyjabökkum sé fórnað.

Með vel menntuðu fólki í kaupsýslu og forritun hafa verið rifin og verða rifin upp úr engu ótal fyrirtæki, sem eru margfalt verðmeiri en samanlagðir villtustu stóriðjudraumar hættulegustu stjórnmálamanna landsins, sem vilja halda þjóðinni á frumframleiðslustigi.

Ódýrasta og arðbærasta leiðin inn í óvissa framtíð er ungt fólk, sem kann til verka í nýjum atvinnugreinum og hefur aðgang að ígildi mömmubílskúrs.

Jónas Kristjánsson

DV