Herforingjar ganga lausir

Greinar

Flug rússneskra sprengjuflugvéla umhverfis Ísland löngu eftir lok kalda stríðsins vekur grunsemdir um, að yfirvöld í Rússlandi hafi ekki stjórn á herforingjum sínum. Flugið stríðir gegn anda núverandi samstarfs vesturveldanna og Rússlands í öryggismálum Evrópu.

Flugið minnir á hraðferð nokkur hundruð rússneska hermanna frá Bosníu um Serbíu til flugvallarins í Pristina í Kosovo. Ferðalagið kom utanríkisráðherra Rússlands og öðrum samningamönnum Rússa jafnmikið á óvart og það kom ráðamönnum vesturveldanna.

Síðar hefur komið í ljós, að rússneskir herforingjar ætluðu að nota flugvöllinn til að taka á móti fjölmennu herliði rússnesku. Ráðagerðin hrundi, af því að fyrrverandi fylgiríki Sovétríkjanna sálugu neituðu flugher Rússa um leyfi til að nota lofthelgi sína.

Þessi krókur á móti bragði lokaði rússnesku hermennina frá Bosníu inni í greni þeirra á flugvellinum. Þeir fengu hvorki liðsauka né birgðir úr lofti og urðu loks að leita á náðir Breta um vistir. Á meðan hafa hermenn vesturveldanna komið sér fyrir um alla Kosovo.

Víðar um heim valda athafnasamir herforingjar stjórnvöldum sínum vandræðum. Alvarlegasta dæmið um það er innrás nokkur hundruð hermanna frá Pakistan inn á yfirráðasvæði Indlands í Kasmír-fjöllum, sem auðveldlega gæti leitt til kjarnorkustríðs.

Á Vesturlöndum er ekki tekið mark á fullyrðingum Pakistana um, að þetta séu sjálfstæðir skæruliðar. Raunar er talið, að herforingjar í Pakistan hafi verið að skipuleggja aðgerðina á sama tíma og leiðtogar Indlands og Pakistans hittust í vetur til að efla frið landanna.

Sem betur fer hafa indverskir ráðamenn tekið af æsingslausri festu á málinu, svo að vandinn hefur ekki stigmagnazt. En Pakistan hefur orðið sér til minnkunar á alþjóðlegum vettvangi og mun hér eftir eiga erfitt með að ljúga út efnahagsstuðning frá vesturveldunum.

Indónesía er þriðja dæmið um, að óeirnir herforingjar gangi lausir. Stjórnvöld landsins ákváðu að leyfa íbúum Austur-Tímor að greiða atkvæði um aðild að Indónesíu eða sjálfstæði. Herinn í Indónesíu hefur leynt og ljóst reynt að grafa undan þessari ákvörðun stjórnvalda.

Herinn hefur vopnað glæpasveitir landnema og horfir aðgerðalaus á, þegar þær vaða um með brennum og morðum. Hann hefst ekki einu sinni að, þegar ráðist er á samþykktar eftirlitsstöðvar Sameinuðu þjóðanna og einn fulltrúi þeirra meira að segja drepinn.

Herinn í Indónesíu er að reyna að hindra samstarf stjórnvalda landsins við Sameinuðu þjóðirnar um Tímor. Herinn í Pakistan er að reyna að hindra landamærasamstarf við Indland. Herinn í Rússlandi er að reyna að hindra samstarf við vesturveldin í öryggismálum.

Í öllum þremur ríkjunum eru stjórnvöld veikburða, einkum vegna spillingar og efnahagserfiðleika. Herforingjar nota sér vesaldóm borgaralegra stjórnvalda og fara sínu fram án samráðs við þau og í trássi við tilraunir þeirra til að efla frið við umheiminn.

Svo aum geta stjórnvöld orðið, að Jeltsín forseti þykist eftir á hafa vitað um kappakstursmálið og verðlaunar herforingjann með auknum titlum. Ef hann hefði beðið í nokkra daga, hefði hann komizt að raun um, að ævintýramennska hersins færi út um þúfur.

Það rýrir öryggi jafnvel hér langt norður í höfum, að herforingjar gangi í auknum mæli lausir og tefli tapskákir sínar þvert á skákir borgaralegra stjórnvalda.

Jónas Kristjánsson

DV