Tímans þungi niður

Greinar

Þingeyri var fram eftir þessari öld eitt grónasta og öflugasta sjávarpláss landsins, en rambar nú á barmi fólkseyðingar eftir aðeins fimmtán ára undanhald. Allt fram á þetta ár þurfi tugi erlends fiskvinnslufólks til þjóna færiböndunum, sem nú hafa hljóðnað.

Bilunareinkenni Þingeyrar byrjuðu að koma í ljós árið 1983, þegar Sléttanesið var smíðað á Akureyri fyrir helmingi meiri peninga en áætlað hafði verið. Aðild Kaupfélags Dýrfirðinga að þjóðrembu íslenzkra skipasmíða var upphafið að undanhaldi staðarins.

Nýkomnir raunvextir á Íslandi hindruðu, að skuldir gufuðu upp. Kaupfélögin og samband þeirra höfðu haft óvenjulega greiðan aðgang að gjafalánum fyrri tíma og áttu erfitt með að fóta sig í heilbrigðu vaxtakerfi. Þannig varð Sléttanesið að myllusteini Þingeyrar.

Kvótakerfið hélt innreið sína um svipað leyti. Eins og fleiri stjórnendur á Vestfjörðum áttu stjórnendur sjávarútvegsins á Þingeyri erfitt með að laga sig að breytingunni. Þeir kunnu ekki að hagræða með því að kaupa og selja kvóta eftir aðstæðum hverju sinni.

Íbúar staðarins tóku þátt í einum dýrasta þætti byggðagildrunnar árið 1995 með því að slá saman í hlutafé til að bjarga útgerð Sléttanessins. Byggðagildra er íslenzkt fyrirbæri, sem felur í sér, að staðbundnu krabbameini er dreift um allt bæjarfélagið.

Sveitarfélög nota útsvarsfé í hlutabréf í stað þjónustu við bæjarbúa. Skólarnir versna og koma unga fólkinu ekki til mennta. Íbúarnir safna saman í hlutafé í stað þess að spara. Lífeyrissjóðir fjárfesta í lélegum heimafyrirtækjum í stað þess að varðveita lífeyri fólks.

Göng til Ísafjarðar og aðild að nýju sveitarfélagi urðu Þingeyri ekki til hjálpar. Reksturinn flutti í nokkrum áföngum til Ísafjarðar og sumpart til Eyjafjarðar. Fólkið sat eftir og vildi ekki sækja vinnu til Ísafjarðar, þótt Hafnfirðingar sæki vinnu til Reykjavíkur.

Þótt Þingeyringar hafi um fimmtán ára skeið fallið í flestar gryfjur byggðaröskunar, hefur verið nóg að gera í plássinu fram á þetta ár. Sjötíu Pólverjar voru í hópi þeirra, sem urðu atvinnulausir, þegar erfiður rekstur Rauðsíðu var stöðvaður í síðasta mánuði.

Fólkið situr eftir með uppgufaðan sparnað í verðlausum húsum og hlutabréfum og börnin eru vanmenntuð til að taka þátt í atvinnuævintýrum nútímans. Opinberir sjóðir munu koma til skjalanna, en þeir lækna ekki mein þeirra, sem eru bitrir og fastir í fortíðinni.

Þjóðfélagið gerir ráð fyrir, að nýjar hátekjugreinar fyrir sunnan leysi færibandavinnu sjávarplássa af hólmi. Það gerir ráð fyrir, að kvótinn safnist á færri hendur og endi allur að lokum í kvosinni í Reykjavík. Þjóðfélagið hefur sagt skilið við lífshætti sveita og sjávarsíðu.

Þeir, sem eru fljótir að átta sig á þessu og hafa sveigjanleika til að flytja sig inn í sólskinið, ná forskoti fyrir sig og afkomendur sína, meðan aðrir streitast í byggðagildrunni og brenna verðmætum. Segullinn fyrir sunnan er Íslandssaga tuttugustu aldar í hnotskurn.

Þetta ferli hefur ekki verið framleitt af vondum stjórnmálamönnum með vonda vexti og vondan kvóta. Það hefur verið eins konar náttúrulögmál, óhjákvæmileg afleiðing þess, að Íslendingar hafa viljað fylgja nágrannaþjóðum sínum á siglingu frá fortíð til framtíðar.

Örlagavaldurinn í óláni Þingeyrar er atvinnusagan sjálf, þar sem sumir berjast og brotna, en aðrir láta sig berast með straumnum til áður óþekktra tækifæra.

Jónas Kristjánsson

DV