Stjórnlausir sniglar

Greinar

Vegamálastjóri og borgarverkfræðingur hafa valdið íbúum höfuðborgarsvæðisins og öðrum þeim, sem þar eiga erindi, gífurlegum kostnaði í eldsneyti og töfum vegna umferðarteppu, einkum á leiðum úr Borgarholti, Mosfellssveit og utan af landi til Reykjavíkur.

Ekki er unnt að sjá, að embættismennirnir hafi tekið neitt tillit til óþæginda notenda við skipulag og útboð framkvæmdanna. Á hverjum stað standa þær yfir mánuðum saman og valda reglubundnum töfum á helztu álagstímum sólarhringsins og vikunnar.

Á sunnudaginn keyrði óreiða embættismanna um þverbak, þegar biðröðin á leiðinni til Reykjavíkur náði upp að Hvalfjarðargöngum. Sú klukkutíma töf er þó smælki í samanburði við samanlagðar tafir fólks, sem daglega þarf að þola ástandið á leið í og úr vinnu.

Ekki er unnt að verja þetta með því að segja, að stórframkvæmdir taki tíma. Í Bandaríkjum eru umferðarbrýr reistar á einum degi. Þar er steypan forunnin og ekki látin harðna á staðnum. Þar er unnið dag og nótt alla daga vikunnar, þegar mikið liggur við.

Í Bandaríkjunum eru brúarstöplar reistir og brúargólf lögð, án þess að þrengja að umferð fyrir neðan. Þannig hefði með hæfilegri forvinnu verið hægt að reisa Skeiðarvogsbrú yfir Miklubraut án þess að fækka á meðan akreinum á Miklubraut úr þremur í tvær.

Auðvitað þarf að hanna mannvirki með tilliti til tækni og tíma við úrvinnsluna. Hönnun verður flóknari og framkvæmd verður dýrari, þegar taka þarf tillit til fólks. En kostnaðaraukinn skilar sér margfalt til þjóðfélagsins, þegar þjónustulund fær að ráða ferðinni.

Hvernig ætla vegamálastjóri og borgarverkfræðingur að fara að, þegar þeim verður falið að hanna og bjóða út mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin er þyngst á höfuðborgarsvæðinu? Ætla þeir að senda þjóðina í sumarfrí í tvö ár?

Ábyrgðin á óhæfum embættismönnum hvílir að sjálfsögðu á pólitískum yfirmönnum þeirra, samgönguráðherra og borgarstjóra. Þeir eiga að taka í lurginn á starfsmönnum, sem skaða umbjóðendur hinna pólitísku leiðtoga með getuleysi, þekkingarleysi og áhugaleysi.

Erfitt er að flýta þeim framkvæmdum, sem þegar hafa verið boðnar út á forsendum snigilsins og eru unnar samkvæmt þeim. En samgönguráðherra og borgarstjóri geta veitt embættismönnum sínum skriflega og opinbera áminningu og beðizt afsökunar fyrir þeirra hönd.

Embættismenn fara ekki að þjóna fólki fyrr en þeir byrja að fá opinberar ákúrur fyrir skipulagsóreiðu. Fram að þeim tíma hrærast þeir og starfa í tómarúmi, þar sem hönnun framkvæmda lýtur engum utanaðkomandi hömlum neins raunveruleika utan tómarúmsins.

Eftir hrapallega reynslu af stórframkvæmdum ársins í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt, að svona verði aldrei aftur staðið að skipulagi slíkra framkvæmda. Senda verður menn til Bandaríkjanna til að læra, hvernig forðast megi óþægindi almennings.

Þar vestra og raunar víðar í heiminum eru margfalt stærri umferðarmannvirki reist á broti af íslenzkum framkvæmdatíma og með broti af íslenzkum umferðartöfum. Að baki liggur hugsun og tækni, sem íslenzkir vegaverkfræðingar verða að tileinka sér.

Fílabeinsturna vegamálastjóra og borgarverkfræðings þarf að rífa. Bjóða ber út hönnun mannvirkja og gera kröfu um, að framkvæmdir tefji ekki fyrir fólki.

Jónas Kristjánsson

DV