Borgarstjórn skaðar Laugardal

Greinar

Umhverfisslys borgarstjórnar Reykjavíkur í Laugardal minnkar ekki við, að stjórnmálaandstæðingar hafi í vetur verið samþykkir því að mestu eða að forverar þessara andstæðinga hafi fyrir aldarþriðjungi sett það inn á borgarskipulagið við allt aðrar aðstæður.

“Þeir voru ekkert skárri en ég”, er borgarstjóri að segja, þegar hún afsakar sig með tilvísun til fyrrverandi og núverandi pólitíkusa borgarinnar. Röksemdafærsla borgarstjórans hefur frá ómunatíð fylgt billegum pólitíkusum, sem ekki nenna að verja málstaðinn.

Á sama hátt beita ráðherrar ríkisstjórnarinnar því fyrir sig, að forverar þeirra hafi á sínum tíma samþykkt virkjun, sem færir Eyjabakka í kaf. “Ekki benda á mig”, segja Halldór, Finnur og Siv, alveg eins og Ingibjörg Sólrún. Lélegir pólitíkusar vísa frá sér ábyrgð.

Umhverfisslysin hófust snemma í Laugardal. Fyrsta stórslysið varð, þegar leyft var að byggja í Skeifunni og Fenjunum í stað þess að búa til beina tengingu milli gróðurvinjanna í Laugardal, Elliðaárdal og Fossvogsdal. Á þeim tíma skildu fáir gildi opinna svæða.

Lungu borgarinnar skipta miklu, hvort sem þau eru notuð til útivistar eða ekki. Þau skapa víddir, draga úr innilokunarkennd og bjóða útivistarkosti, sem síðar meir verða mikils metnir af fólki, þegar áhugi á náttúru og útivist hefur aukizt enn frá því, sem nú er.

Sú plága hefur löngum fylgt borgaryfirvöldum að telja sig þurfa að þétta byggðina til að ná fram meiri hagkvæmni. Þetta varð einkum til vandræða á fyrra valdaskeiði vinstri flokkanna í Reykjavík og hefur aftur verið sett á oddinn af ráðamönnum Reykjavíkurlistans.

Afleiðingarnar hafa ekki bara orðið umhverfisslys, heldur einnig umferðarslys. Hanna hefur orðið ný umferðarmannvirki á dýran, óhagkvæman og hættulegan hátt, af því að svigrúm þeirra er of lítið. Þannig var til dæmis byggt ofan í núverandi Höfðabakkabrú.

Skipulagsfræðingar hafa aldrei getað svarað einfaldri spurningu: Hvers vegna þarf að skipuleggja allt núna, í stað þess að leyfa hlutunum að dankast, svo að eitthvað sé eftir fyrir afkomendur okkar að skipuleggja, þegar aðstæður eru orðnar allt aðrar en þær eru núna?

Í Laugardal er afar vinsæl borgarstofnun, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn, vinsæll áningarstaður barnafólks. Hvorn garð um sig þarf að þrefalda að stærð til að mæta kröfum náinnar framtíðar. Grasgarðinn þarf líka að vera hægt að stækka, þegar tímar líða fram.

Með því að leyfa byggingu Landssíma- og skemmtihúsa á þessu gróðursæla svæði er borgarstjórinn í Reykjavík að þakka fyrir kosningapeninga og hindra umtalsverða stækkun hinna vinsælu garða, þrengja þróunarkosti og skaða langtímahagsmuni.

Þótt menn hafi árið 1962 ekki séð þörfina fyrir opin svæði í Laugardal, er hægt að sjá hana árið 1999. Þess vegna ber borgaryfirvöldum að fella úr gildi úrelt skipulagsákvæði og samþykkja ný, sem taka tillit til, að ýmsu getur farið fram í borgarlífinu á aldarþriðjungi.

Því ber að afturkalla skaðlegar hugmyndir borgaryfirvalda um byggingu símahúss og skemmtihúss í Laugardal og leyfa afkomendum okkar að ráða, hvað verður gert við svæðið. Á meðan má einfaldlega hafa þar tún og beitiland fyrir húsdýr og hesta.

Fólk má ekki bíta sig í gamlar ákvarðanir frá frumstæðari tímum. Tíminn er fugl, sem flýgur hratt og flytur okkur ný gildi með nýjum kynslóðum.

Jónas Kristjánsson

DV