Margir kallaðir en fáir útvaldir

Greinar

Pólitíska moldviðrið út af lokun Sæunnar á Ólafsfirði sýnir, hversu erfitt er að úthluta opinberum stuðningi, svo að öllum líki. Byggðakvóti er verðmæt auðlind, þar sem margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Þeir, sem ekki fá, verða að vonum harla ókátir með niðurstöðuna.

Ekki verður séð, að rangt hafi verið staðið að úthlutun byggðakvótans. Alþingi setti um hann lög, sem Byggðastofnun hefur reynt að fara eftir. Samkvæmt síu laganna er Ólafsfjörður of stór og öflugur bær til að komast gegnum nálarauga skömmtunarkerfisins.

Alþingismenn, sem settu lögin sjálfir, eru farnir að heimta, að Byggðastofnun líti fram hjá texta laganna og veiti fyrirtæki á Ólafsfirði sérstaka fyrirgreiðslu, að því er virðist vegna þess, að forstjóri þess hafði sérstaklega hátt, þegar hún skellti hurðum og læsti.

Dæmið sýnir í hnotskurn, að úthlutun er aldrei sanngjörn. Hún er í innsta eðli sínu mismunun. Þar á ofan liggur í hlutarins eðli, að meiri líkur eru á, að hún verðlauni skussa, heldur en þá, sem hafa staðið sig vel og byggt upp blómlegan rekstur á eigin fótum.

Við rekum okkur sífellt á þá staðreynd, að markaðslögmálin ein eru sanngjörn. Þau mismuna ekki og þau verðlauna ekki skussa. Þau grisja garð atvinnulífsins og gefa þeim plöntum svigrúm, sem bezt vaxa. Þannig eflist þjóðarhagur mest og hraðast.

Um leið felst grimmd í hlutleysi markaðslögmálanna. Bæjarstjóri Ólafsfjarðar lýsir þeim vítahring, að nú flytjist atvinnulausar konur frá Ólafsfirði með börn sín og lögheimili eiginmanna sinna og þar með verði ógætilega skuldsettur bærinn af útsvarstekjum þeirra.

Raunar er engin byggðastefna þjóðinni hagkvæm önnur en sú, sem tryggir byggð í landinu gagnvart útlöndum. Ef allir vilja búa í nágrenni Kvosarinnar, á að leyfa þeim það, án þess að leggja fyrir þá sérstakar byggðagildrur fyrir hönd plássa, sem eru á undanhaldi.

Vilji þjóðfélagið draga úr þungum straumi þjóðarinnar til höfuðborgarsvæðisins, kostar það mikið skattfé, sem nýtist ekki í annað, og þar á ofan misklíð á borð við þá, sem risin er út af því, hvort sanngjarnt sé eða ekki, að Sæunn á Ólafsfirði njóti opinberrar fyrirgreiðslu.

Staðreyndin er sú, að fólksflutningar í landinu eru svo stríðir, að velviljað ríkisvald hefur ekki fé til að hamla gegn þeim. Með úthlutun byggðakvóta til fámennra byggða á undanhaldi er hægt að klóra smávegis í bakkann, en ekki að snúa við augljósri byggðaþróun.

Sú byggðastefna, sem rekin er hér á landi, er smábyggðastefna, sem getur linað þjáningar hér og þar um tíma, en fær ekki hamlað gegn tímans þunga straumi. Hún er eins konar guðsþakkarverk stjórnmálamanna, sem henda skildingum í útvalda fátæklinga.

Vafalaust hafa einhverjir grátið, þegar í eyði lögðust Dritvík og Djúpalón, þar sem sést ekki tangur né tetur af stórveldistíma fyrri alda. Vafalaust hafa aðrir grátið, þegar Hornstrandir lögðust í eyði og breyttust í eftirsótta náttúruvin. En markaðslögmálin fengu að ráða.

Þjóðfélag getur kosið sér að sækja fram veginn og halda til jafns við önnur þjóðfélög í umhverfi sínu. Það getur líka valið þá leið að leggjast í varðveizlu fortíðar og verja til þess fjármunum sínum, svo að það breytist í eins konar byggðasafn fátæktar og fortíðar.

Gagnslaust er hins vegar að kasta skildingum í sérvalda smælingja í þeirri von, að almættið taki viljann fyrir verkið og fyrirgefi þjóðinni syndir hennar.

Jónas Kristjánsson

DV