Frankenstein-fæðan

Greinar

Í hillum íslenzkra matvöruverzlana er áreiðanlega eitthvað af erfðabreyttum mat, mestmegnis ættuðum frá Bandaríkjunum. Erfðabreyttu vörurnar eru ekki merktar sem slíkar, svo að neytendur geta ekki sjálfir ákveðið, hvort þeir neyta slíkra matvæla eða ekki.

Í löndum Evrópusambandsins hefur verið mikil umræða um erfðabreyttan mat, sem margir vilja forðast. Einkum hefur andstaðan verið hörð í Bretlandi, þar sem þessi matvæli eru jafnan kölluð Frankenstein-fæða. Hér á landi virðast hins vegar fáir hafa áhuga.

Rannsóknir á afleiðingum erfðabreyttra matvæla eru skammt á veg komnar, eru á ýmsan hátt misvísandi og hafa ekki leitt til neinna beinna sannana um skaðsemi þeirra, þótt sumar niðurstöður bendi í þá átt. Í Evrópu vilja menn fara varlega meðan þekkingar er aflað.

Framleiðendur erfðabreyttra matvæla í Bandaríkjunum hafa aukið afköst móður jarðar um tugi prósenta. Því geta þeir undirboðið keppinauta sína, sem ekki framleiða erfðabreytt matvæli, til dæmis evrópska keppinauta, ef aðgangur fæst að evrópskum markaði.

Evrópusambandið hefur í vaxandi mæli tekið forustu í andstöðunni við erfðabreyttu matvælin. Það leggur steina í götu innflutnings slíkra matvæla og krefst þess, að þau séu merkt sem slík, svo að neytendur viti, hvort þeir séu að nota erfðabreytt matvæli eða ekki.

Bandaríkjastjórn er andsnúin merkingum og hefur fengið Heimsviðskiptastofnunina nýju til að fallast á, að Evrópa sé með þessu að vernda landbúnað sinn á lævísan hátt. Stofnunin hefur þar á ofan heimilað Bandaríkjunum að leggja refsitolla á evrópskar vörur.

Ef Heimsviðskiptastofnunin heldur fast við þá stefnu, að andstaða við erfðabreytt matvæli feli í sér dulbúna vernd evrópsks landbúnaðar, er hún komin út á svo hálan ís, að vafasamt er, að hún fái staðist til lengdar. Hún stefnir raunar hraðbyri í átt til sjálfsmorðs.

Krafan um sérmerkingu erfðabreyttra matvæla á ekki að geta orðið tilefni svona harðra viðbragða af hálfu Bandaríkjastjórnar og Heimsviðskiptastofnunarinnar. Með henni er bara verið að kasta boltanum til neytenda, en ekki verið að banna Frankenstein-fæðuna.

Margir sérfróðir aðilar telja rétt að ganga miklu lengra og banna alla framleiðslu og innflutning erfðabreyttra matvæla, unz betri þekking hefur náðst á afleiðingum tilrauna. Þeir telja, að menn ráði ekki við andann, sem þeir eru að hleypa úr lampa Aladíns.

Neytendur í Evrópu og einkum í Bretlandi hafa tilhneigingu til að styðja þá, sem varlega vilja fara. Brezka kúafárið og belgíska kjúklingafárið hafa valdið því, að almenningur trúir varlega fullyrðingum um, að hitt og þetta sé í góðu lagi í matvælaframleiðslunni.

Hér á landi vilja menn ekkert vita af viðskiptastríðinu um erfðabreyttu matvælin. Hagsmunir innlends landbúnaðar valda því eigi að síður, að Ísland verður fljótt að feta í fótspor Evrópusambandsins og taka upp sömu boð og bönn og sömu kröfur um merkingar.

Samt er umhugsunarefni, að slíkt verður ekki gert til að vernda íslenzka neytendur eða gera þeim kleift að vernda sig sjálfir, heldur til að vernda landbúnaðinn, sem ekki framleiðir erfðabreytt matvæli. Við fáum því flutta inn rétta lausn á röngum forsendum.

Einnig er umhugsunarefni, að hér bætist við enn eitt dæmið um, að Evrópusambandið hefur endanlega tekið við hlutverki ábyrga heimilisföðurins á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV