Nokkur hundruð Íslendinga létu fyrir tæpu ári ginnast til að kaupa sig inn í gróðavon í sölu á undraúðanum Waves, sem sagður var allra meina bót. Greiddu þeir frá 100.000 krónum upp í rúmlega 200.000 krónur fyrir að komast á rétta hillu í píramída-sölukerfinu.
Svo ýkt var dæmið, að ekki var heil brú í neinu. Erlendir fagurgalar sungu um sérstöðu Íslendinga í fremstu víglínu sölumennskunnar, sem fyrirhuguð var um allan heim. “Við ætlum að gera ykkur að súperstjörnum”. Fyrir þessu féllu menn unnvörpum.
Venjulegt fólk á að vita, að óheilindi og oftrú búa yfirleitt að baki píramída-sölukerfum. Það á að vita, að undralyf utan apóteka koma yfirleitt ekki að neinu gagni. Það á að kunna að gæta sín á sölumönnum, sem reiða í þverpokum hrósið um fórnardýr sín.
Ofan á þetta bættist, að DV sagði í fréttum á þessum tíma, að úðinn hefði að geyma efni, sem væru bönnuð hér á landi, og að fréttaritari blaðsins í Kaliforníu hefði aðeins fundið pósthólf í verzlunarmiðstöð, þar sem höfuðstöðvar framleiðslunnar áttu að vera.
Fólk vildi bara ekki hlusta á staðreyndir. Það vildi ekki hlusta á neitt, sem truflaði glansmyndina. Mörg hundruð manna voru sannfærð um, að þau væru dottin í lukkupottinn og mundu græða milljónir króna án mikillar fyrirhafnar. Því gekk það í gildruna.
Skilningarvitin lokuðust fyrir þeirri frétt, að heilbrigðisráðuneytið hafði látið kanna allar vörurnar og upplýst, að sala þeirra allra yrði bönnuð vegna innihaldsins. Skilningarvitin lokuðust fyrir þeirri frétt, að höfuðstöðvar úðans í Kaliforníu voru bara alls ekki til.
Íslendingar virðast veikari fyrir rugli af þessu tagi en flestar aðrar vestrænar þjóðir. Ímyndunarafl okkar er minna heft af raunvísindum. Menn trúa á happdrættisvinninga. Menn telja, að unnt sé að spá fyrir um óorðna hluti. Menn tala gegnum miðla við látið fólk.
Það leiðir af sjálfu sér, að hér á landi trúa menn á allrameinalyf utan lyfsölukerfisins. Einu sinni hét það Áli og nú heitir það Herbalife, sem megrar og fitar eftir þörfum. Waves komst aldrei á flug, ekki vegna skorts á trúgirni, heldur vegna óreiðu hjá aðstandendum.
Píramída-sölukerfi njóta vinsælda meðal fáfróðra þjóða. Þannig urðu nýfrjálsir Albanar gjaldþrota tugþúsundum saman fyrir áratug. Hér á landi hafa slík kerfi gosið upp hvað eftir annað. Þetta er sama kerfið og notað er um allan heim í fíkniefnabransanum.
Það væri gagnlegt fyrir okkur að kanna, hvað það geti verið í þjóðarsálinni, sem gerir okkur ginnkeypt fyrir draumnum um skjótfengna gróðann, happdrættisvinninginn, undralyfið. Er það sama genið og dáleiðir okkur til að kaupa fótanuddtæki þúsundum saman?
Hér eru kolbítar í öskustó, sem bíða eftir að verða slegnir töfrasprota, svo að þeir rísi á fætur og sigri heiminn. Hér eru Þyrnirósur, sem bíða eftir, að prinsinn komi með gullskóinn. Hér er fullt af annars hversdagslegu fólki, sem er bjartsýnt og trúgjarnt út í eitt.
Eins og Halldór Laxness sagði í Innansveitarkróníku, þá eru Íslendingar lítt næmir fyrir skynsamlegum rökum. Þetta vita þeir, sem hafa langa reynslu af að reyna að beita rökum í skrifum um menn og málefni. Leiðin að hjarta Íslendinga liggur um aðrar slóðir.
Þess vegna er nú enn von á úðanum fræga, sem mun lækna öll mein þjóðarinnar og flytja hana í eitt skipti fyrir öll á bleika skýið í dansi Þyrnirósar í höllinni.
Jónas Kristjánsson
DV