Spakmæli eru sem aldagamall reynslubrunnur oft gagnlegri leiðarljós en kennisetningar nútímans. Dæmi um slíkt er friðarviðleitni Vesturlanda á Balkanskaga, sem hefur að leiðarljósi þá fáránlegu kenningu, að rétt sé að kenna hatursmönnum að lifa saman í friði.
Þessi vonlausa viðleitni hófst í Bosníu fyrir nokkrum árum og verður nú endurtekin í Kosovo, þótt menn hefðu átt að læra af reynslunni frá Bosníu. Vandræðin stafa einkum af Bandaríkjunum, þar sem menn telja suðupott þjóða vera efsta tilverustig mannsins.
Deila má um, hvort tekizt hafi að bræða saman þjóðir í Bandaríkjunum. Að minnsta kosti hefur fólk af afrískum og rómönskum uppruna ekki lagazt að neinu meðaltali, sem kalla mætti bandarískt. Vandamál fjölþjóðaríkisins hafa engan veginn verið leyst þar vestra.
Frá Bandaríkjunum kemur kenningin um, að innprenta beri þjóðum Balkanskaga að lifa saman í friði. Sú kenning hefur leitt til óraunhæfra aðferða Vesturlanda við að halda þar uppi friði og efla velsæld. Nær hefði verið að leita leiðsagnar í aldagömlum spakmælum.
Garður er granna sættir segir eitt spakmælið. Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að halda frið milli nágranna er að reisa girðingu milli þeirra, svo að ljóst sé, hvað sé hvers. Flóknasta og dýrasta leiðin er hins vegar að þvinga fólk inn í sameiginlega girðingu.
Einfaldasta og ódýrasta aðgerðin til eflingar friði á Balkanskaga er að reisa girðingu umhverfis Serbíu, þar sem alls engir nema Serbar séu öðrum megin og alls engir Serbar séu hinum megin. Vesturlönd gætu þá tekið að sér að vakta eina girðingu í stað stórra svæða.
Eini vandinn við girðinguna er að finna, hvorum megin Svartfjallaland og Vojvodina eigi að lenda. Ljóst er, að Kosovo öll ætti að vera vestan hennar og að Bosníu ætti að skipta eftir einfaldaðri útgáfu af núverandi markalínu milli svæða Serba og svæða annarra þjóða.
Hermenn, löggæzlumenn, erindrekar og hjálparstarfsmenn af Vesturlöndum eru á þönum um stór svæði í árangurslausri friðar- og uppbyggingarviðleitni. Glæpaforingjar heimamanna taka ekki mark á tilskipunum að vestan og stela mestallri fjárhagsaðstoðinni.
Sem dæmi um árangursleysi löggæzlunnar má nefna, að verst ræmdu stríðsglæpamenn Bosníu, þeir Radovan Karadzic og Radko Mladic, ganga enn lausir og fara allra sinna ferða. Ekki hefur heldur tekizt að hindra Albana í að hefna harma sinna á Serbum í Kosovo.
Tekið hefur verið saman, hversu miklu af vestrænu hjálparfé hafi verið stolið í Bosníu. Það eru rúmlega 70 milljarðar íslenzkra króna, sem er rosalega mikið fé. Umsvifamestu þjófarnir eru forseti Bosníu, Alija Izetbegovic, og sonur hans, Bakir Izetbegovic.
Um spillinguna í Bosníu hefur verið samin 4000 blaðsíðna leyniskýrsla, sem komizt hefur í hendur New York Times. Sem lítið dæmi úr henni má nefna, að Vesturveldin saka borgarstjórann í Sanski Most, Mehmed Alagic, um 358 aðskilda þjófnaði á vestrænu hjálparfé.
Ástæðulaust er að sóa peningum til uppbyggingar, ef þeim er meira eða minna stolið. Einfaldara og ódýrara er að láta heimamenn sjálfa ráða því, hvort þeir vilja byggja fyrir eigin rammleik, og takmarka afskipti Vesturlanda við það eitt að stía hatursmönnum í sundur.
Við balkanskar aðstæður þýðir ekki að segja mönnum að elska hver annan. Nærtækara er að fara eftir spakmælinu, sem segir, að garður sé granna sættir.
Jónas Kristjánsson
DV