Að meika það

Greinar

Söngleikur með því dæmigerða nafni Jesus Christ Superstar var framinn í Austurbæjarbíói fyrir nokkrum áratugum. Hann er minnisstæður, því að annars vegar söng þrautþjálfaður Jón Sigurbjörnsson hlutverk Kaífasar og hins vegar gauluðu popparar í hljóðnema.

Einkennilegt var að hlusta á Kaífas syngja og sjá Jesúm og hina popparana hoppa í kring með hljóðnemana. Þarna var samanburður hámenningar og lágmenningar í hnotskurn, annars vegar heyrðist í rödd og hins vegar í poppurum, sem voru að reyna að meika það.

Í hámenningu geta gagnrýnendur og listaskýrendur sundurgreint getu listamanna í skilgreinanlega þætti og rætt efnislega um misjafna getu þeirra á hverju sviði. Listmálari býr yfir tækni í sérstakri meðferð lita og rithöfundur hefur lag á stuttum málsgreinum.

Þannig var hægt að ræða Jón Sigurbjörnsson sem söngvara, tala um sterkar hliðar hans og veikar, bera saman við aðra söngvara á svipuðu sviði og komast að raun um, að innanlands væri enginn honum fremri á afmörkuðu sviði. Listamannsgæðin voru mælanleg.

Í lágmenningu skipta aðrir þættir meira máli. Miklu fleiri eru kallaðir og miklu erfiðara er að reyna að átta sig á, hver sé betri en annar. Tízkusveiflur skipta máli. Menn meika það með því að vera á réttum stað á réttum tíma. Og menn eru framleiddir af fyrirtækjum.

Fyrir mörgum árum áttaði DV sig á, að hljómdiskaútgefandi falsaði sölutölur á þann hátt, að diskur komst efst á metsölulista áður en eitt einasta eintak hafði verið selt af honum. Blaðið varð að setja upp flókið mælingakerfi til að koma í veg fyrir þessa blekkingu.

Slíkur vandi væri óhugsandi í bókaútgáfu hér á landi. En við sjáum þess merki í Bandaríkjunum, að bókaforlög snúast í vaxandi mæli um miðlungsbækur, sem skrifstofumenn semja undir nafni fræga fólksins, en hefðbundnar alvörubækur týnast í auglýsingaflóðinu.

Ekki er hægt að framleiða listamenn á sama hátt og brezkar hljómdiskagerðir og bandarískar bókaútgáfur framleiða súperstjörnur með því að hafa skynbragð á, hvaða atriði muni verða í tízku allra næstu misserin eða hvaða atriðum verði hægt að koma í tízku.

Í poppaða heiminum snýst málið um að meika það og verða súperstjarna, venjulega um skamma hríð, fram að næstu auglýsingaherferð. Núna undir lok tuttugustu aldar er þetta ferli að verða alls ráðandi, en áhugi á langvinnri klassík að verða sérvizka gamalmenna.

Breytingin frá klassískum bókmenntum, myndlist og tónlist yfir í poppaðar bókmenntir, myndlist og tónlist er samfara öðrum breytingum í þjóðfélaginu. Málið snýst ekki lengur um gæðasamanburð, heldur tízkutengdar aðstæður til að meika það eða láta meika sig.

Við getum jafnvel eygt skyld atriði á öðrum sviðum. Menn meika það að verða landlæknir með því að vera þægur við ríkisstjórnina í vísindasiðanefnd. Menn meika það að verða umhverfisráðherra með því að skipta um skoðun á uppistöðulóni á Eyjabökkum.

Í lágmenningu í listum, embættisfærslu og stjórnmálum meika menn það eða meika ekki. Sundurgreinanleg og skilgreinanleg gæði eru ekki að baki, heldur rétta trikkið, hvort sem það felst í talnafölsun á metsölulista eða sölu á fyrri skoðun sinni í umhverfismálum.

Þjóðfélag, sem snýst um lágmenningu, dregur fljótlega dám af henni. Þeir, sem ekki meika það í poppinu, geta kannski meikað það í pólitík eða sölu undralyfja.

Jónas Kristjánsson

DV