Ráðherra skemmtir sér

Greinar

Nýi landbúnaðarráðherrann hefur uppgötvað hestinn og fær tæpast hamið hrifningu sína á hestamótum heima og erlendis. Þegar skagfirzkir refir gaukuðu að honum plaggi í hita hrifningar á Vindheimamelum, fannst honum ekkert mál að gefa út skuldaviðurkenningu.

Fyrir rúmri viku samþykkti ráðherrann fyrir hönd ráðuneytis síns, að ríkið gæfi 150 milljónir króna á fimm árum til skagfirzkrar hestamennsku. Hann lofaði upp í ermi ríkisstjórnar, fjárlaganefndar og Alþingis að skekkja markaðsöflin í þágu Skagfirðinga.

Allt, sem Skagfirðingar eiga að gera fyrir peningana, er þegar verið að gera á vegum ýmissa samtaka, ríkisins sjálfs og samkeppnisfyrirtækja. Skagfirðingar eiga að uppgötva hjólið að nýju á kostnað skattborgaranna og gefa öðrum hestamönnum landsins langt nef.

Þetta líkist því, að sjávarútvegsráðherra uppgötvaði skyndilega þorsk og ákvæði í hrifningarvímu að gefa Skagfirðingum helminginn af öllum þorskkvóta landsins, togara og frystihús í ofanálag. Mörg er spillingin í landinu, en þessi tegund er sú vitlausasta.

Hestamennsku hefur farið hnignandi í Skagafirði í samanburði við aðra landshluta. Aðeins 15% sýndra ræktunarhrossa koma fram á sýningum í Skagafirði. Unglingastarf er áberandi minna en í ýmsum öðrum sýslum, sem hafa tekið við merkinu af Skagafirði.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir reiðhöll, sem einstaklingar og félög reisa fyrir eigin reikning annars staðar í landinu. Þeir eiga að borga Skagfirðingum fyrir að halda mót og sýningar, sem ýmis félög og landssamtök gera nú þegar með glæsibrag.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir markaðsstarf, sem nú þegar er unnið á vegum samtaka bænda og útflytjenda. Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir skóla og námskeið, sem ríki, félög og fyrirtæki halda nú þegar fyrir eigin reikning.

Skattgreiðendur eiga að borga Skagfirðingum fyrir að sigla í kjölfar ýmissa aðila, sem þegar hafa tekið tölvutækni í þjónustu sína fyrir eigin reikning, setja upp gagnabanka, spjallrás og veftímarit og búa til ferðakort, sem þegar hefur verið undirbúið annars staðar.

Dæmið í heild er illa grundað byggðastefnumál, sem á að leiða til reiðhallar á Sauðárkróki, hestakennslu í fjölbrautaskólanum þar, upplýsingamiðstöðvar í Varmahlíð, betra mótssvæðis á Vindheimamelum og eflingar Hestasports í samkeppni við aðrar hestaferðaskrifstofur.

Listin við byggðastefnu er að mjólka skattborgarana án þess að skaða beinlínis aðra atvinnustarfsemi í landinu. En ráðagerðir landbúnaðarráðherra fjalla því miður um að spilla samkeppnisaðstöðu ýmissa félaga og landssamtaka og ótal fyrirtækja og einstaklinga.

Ef ríkið á 150 milljónir aflögu til hrossa, er miklu nær að verja peningunum í atriði, þar sem félagslegt framtak og einstaklingsframtak duga skammt. Má þar nefna rannsóknir á hrossasjúkdómum á borð við spatt og sumarexem, sem leika hrossaútflutninginn grátt.

Ef ríkið vill styðja framtak félaga og einstaklinga á þessu sviði, er miklu nær að fela þeim mörgu samtökum, sem fyrir eru í landinu, að ráðstafa peningunum og setja aðeins það skilyrði, að féð sé ekki notað til að skekkja markaðsbúskap og samkeppni í atvinnulífinu.

Gott gæti verið fyrir ríkisstjórnina að setja hömlur á ferðir hrifnæmra ráðherra á skemmtanir, þar sem bragðarefir láta þá gefa út skuldaviðurkenningar.

Jónas Kristjánsson

DV