Þanþol okkar er ótrúlegt

Greinar

Við þolum bensínhækkunina og mundum hafa þolað enn meiri hækkun. Engin samtök eru um gagnaðgerðir í málinu, enda segir reynslan, að bensínnotkun sé óháð verðlaginu. Í ýtrustu tilvikum geta menn sameinazt um að þeyta bílflautur en ekki um að nota strætó.

Menn nota bíla sína jafnmikið, hvort sem bensínlítrinn kostar 60 krónur, 80 krónur eða 100 krónur. Þess vegna er skynsamlegt fyrir olíufélög og fjármálaráðuneyti að hækka bensínið sem allra mest. Það gefur mest í kassann og kostar bara tímabundið væl.

Að vísu eru takmörk fyrir þanþoli arðrænds fólks, en þau mörk hafa ekki fundizt enn í benzíni. Þau hafa hins vegar fundizt á ýmsum öðrum sviðum. Með uppsprengdu verði á grænmeti í skjóli innflutningsbanns og ofurtolla hefur tekizt að halda grænmetisneyzlu í lágmarki.

Erlendis er paprika matur, en hér er hún skraut, sem er sett á mat, enda kostar hún mánuðum saman um það bil 600 krónur kílóið. Sameiginlegt mat nógu margra neytenda er, að verð á papriku sé fyrir utan allan þjófabálk og þess vegna kaupa menn lítið af henni.

Í einokunar- og fáokunarkerfinu, sem ríkir hér á landi, gagnstætt nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins, byggist velgengni okrara á því að teygja þanþol hinna arðrændu til hins ýtrasta án þess að það bresti. Í bensínverðinu hefur slíkt ekki gerzt enn.

Samanburðarathuganir hafa leitt í ljós, að þanþol Íslendinga er meira en nágrannaþjóðanna. Þess vegna eru neyzluvörur dýrari hér en í samanburðarlöndum, hvort sem þær eru innlendar að uppruna eða innfluttar. Kók er 30­156% dýrara hér en á meginlandi Evrópu.

Áhugi okkar á afsláttarkjörum deyfir tilfinningu okkar fyrir eðlilegu verðlagi. Við hugsum svo mikið um afstæðar tölur, að við missum sjónar á raunverulegum tölum. Við fögnum því að geta kríað út 20% afslátt af vöru, sem er 80% dýrari en hún ætti að vera.

Sá, sem kaupir slíka vöru, telur sig hafa sparað 20%, þótt hann hafi í rauninni tapað 25%. Með slíkum hugsunarhætti fagna menn því að geta sparað 5% með því að dæla sjálfir bensíninu. Þeir fagna líka að geta sparað 5% með því að verzla í réttri verzlanakeðju.

Svo mikil fáokun er komin í matvöruverzluninni, að samkeppnin felst í þröngu verðbili milli tegunda verzlana með tilliti til þjónustu. Þetta verðbil helzt milli ára, en verðið á matvörumarkaðinum í heild skríður upp á við í leit að efri mörkum þanþols neytenda.

Okkur er svo ósýnt um að gæta hagsmuna okkar, að við fengumst ekki einu sinni til að taka þátt í ódýrum bílatryggingum, sem Félag íslenzkra bifreiðaeigenda bauð. Í þess stað sátum við sem fastast hjá gömlu kvölurunum og biðum þess, að þeir lækkuðu verðið.

Af því að nógu margir sitja sem fastast, tekst tryggingafélögunum að drepa af sér nýju samkeppnina og fara síðan að láta tryggingagjöldin síga upp á við í nýrri leit að efri mörkum þanþols þjóðarinnar. Þetta er leikur greinda kattarins að heimsku músinni.

Í þessu ástandi er ástæðulaust fyrir fjármálaráðherra að gera því skóna, að ríkissjóður kunni að gefa eitthvað eftir af milljörðunum, sem hann hefur grætt á hækkun bensínverðs á árinu. Hver verður til þess að refsa ráðherranum fyrir háa verðið í næstu kosningum?

Bensínokur hefur ekki áhrif á hegðun kjósenda í kosningum. Því er ráðherranum óhætt að létta sér starfið með því að þenja bensínverðið sem allra mest.

Jónas Kristjánsson

DV