Áður óþekktar óvinsældir

Greinar

Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra má vel við una þessa dagana. Óvinsældir hennar sem stjórnmálamanns eru að vísu töluverðar, en hafa á síðustu misserum algerlega horfið í skugga feiknarlegra óvinsælda tveggja annarra ráðherra Framsóknarflokksins.

Finnur Ingólfsson orkuráðherra og Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra búa við meiri óvinsældir en áður hafa þekkzt í skoðanakönnunum. Álit fólks á þeim er nærri eingöngu neikvætt. Þau eru ekki umdeild eins og Davíð Oddsson, heldur hreinlega afskrifuð.

Finnur Ingólfsson hefur unnið fyrir óvinsældum sínum á löngum tíma með gegndarlausri stóriðjuþrjózku, sem senn mun leiða til mesta umhverfisslyss aldarinnar hér á landi. Hann starfar í skjóli flokksformannsins, sem beitir honum fyrir sig í Fljótsdalsvirkjun.

Siv Friðleifsdóttir siglir hins vegnar inn í sviðsljósið beint á botninn. Hún keypti ráðherradóminn því verði að skipta um skoðun á umhverfismati Fljótsdalsvirkjunar. Hún má varla opna munninn án þess að tapa fylgi, svo ógætin er hún í innantómum fullyrðingum.

Svo óvinsæl eru þau tvö, að samanlagðar óvinsældir annarra stjórnmálamanna komast ekki í hálfkvisti við þau tvö. Er þá undanskilinn Davíð Oddsson, enda falla miklar óvinsældir hans í skugga enn meiri vinsælda, sem eru hinum megin á vogarskálunum.

Vinsældakönnun DV skiptir íslenzkum stjórnmálamönnum í fjóra flokka. Davíð Oddsson er einn og sér í flokki sem umdeildur landsfaðir. Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Geir H. Haarde eru saman í flokki þeirra, sem njóta töluverðs álits.

Síðan koma fyrirlitnu framsóknarmennirnir þrír, Finnur og Siv á botninum og Ingibjörg í humátt á eftir þeim. Í fjórða flokki er forustulið Samfylkingarinnar, fremur óvinsælt, en ekki áhugavert að mati kjósenda. Í fimmta flokki eru svo hinir, sem engu máli skipta.

Halldór Ásgrímsson er einn þeirra, sem kallaðir hafa verið teflon-menn í útlöndum. Hann hefur kvóta í þanþoli kjósenda. Honum er ekki legið á hálsi fyrir að vera frumkvöðull umhverfisslyssins á Austurlandi, heldur er öðrum ráðherrum flokksins kennt um það.

Þótt Halldór njóti þess að geta farið sínu fram í flokknum, telst hann ekki í hópi þeirra mikilhæfu manna, sem rækta eftirmenn og sá þannig til framtíðar. Umhverfis hann í ráðherrastólunum eru fyrirlitnir jámenn, sem kjósendur munu ekki treysta til forustu.

Vont er fyrir stjórnmálaflokk að hafa aðeins einn frambærilegan mann á toppnum og víðáttumikla eyðimörk allt í kring. Verra er fyrir stjórnmálaflokk, þegar toppmaðurinn leggur sig fram við að gæta þess, að sjálfstætt hugsandi fólki sé ýtt til hliðar í flokknum.

Þótt framsóknarmönnum hafi þótt og þyki enn sem þeir séu vel settir með óumdeildan formann, er hætt við, að sagnfræðin fari hrjúfari höndum um Halldór Ásgrímsson í framtíðinni, þegar komið hefur í ljós, að hann mun skilja flokk sinn eftir í rjúkandi rúst.

Áratugum saman var Framsóknarflokkurinn í milliþungavigt. Undir forustu Halldórs og hinna óvinsælu jámanna hans hefur flokkurinn krumpast niður í smáflokksstærð og mælist í skoðanakönnunum á svipuðu róli og Samfylkingin og Græna vinstrið.

Engum íslenzkum flokksformanni hefur tekizt að safna með sér í ríkisstjórn slíku einvala-botnliði óvinsældafólks, sem Halldóri Ásgrímssyni hefur tekizt.

Jónas Kristjánsson

DV