Verðbólguspár eldast illa

Greinar

Í upphafi þessa árs spáðu Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun um 2,5% verðbólgu á árinu öllu. Þá þegar taldi DV í leiðara þessar spár vera rangar, sagði verðbólguna örugglega mundu fara mun hærra, hugsanlega yfir 5%. Nú er ljóst, að verðbólgan fer yfir 6% á þessu ári.

Í leiðara DV var sagt, að Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun væru húsbóndahollar stofnanir, sem ekki vildu valda ríkisstjórninni erfiðleikum í aðdraganda alþingiskosninga. Þjóðhagsstofnun svaraði gagnrýninni fullum hálsi, en svör hennar hafa reynzt vera ómerk orð.

Samfylkingin reyndi að gera verðbólguna og innflutningshallann að kosningamáli í vor, en uppskar ekki annað en aðhlátur úr Háskólanum, þar sem helzti brandarakarlinn hefði mátt vita betur. Enginn vildi frekar en venjulega hlusta á boðbera válegra tíðinda.

6% verðbólga í umheimi 2% verðbólgu er mjög alvarlegt mál, þótt sumum henti pólitískt að loka augunum fyrir því. Eftir áramótin hefjast kjarasamningar að nýju og þá munu forkláruðustu bjartsýnismenn sjá, að óhófleg verðbólga hleður upp óþægilegum vandamálum.

Það eina, sem hefur farið öðruvísi en sjá mátti fyrir í janúar þessa árs, er hækkun benzínverðs á alþjóðamarkaði. Sú hækkun er þó ekki meiri en svo, að hún nemur ekki einu sinni mismuninum á 5% og 6% hækkun. Ríkissjóður hefur hins vegar magnað hana með skatti.

Fyrir utan benzín- og fasteignaverð sker verðhækkun matvæla í augu. Þau hafa hækkað um 6% á einu ári. Sú hækkun var fyrirsjáanleg, enda hefur DV nokkrum sinnum varað við því í leiðurum, að aukin fákeppni á matvörumarkaði mundi magna verðbólguna í landinu.

Samráðin í fákeppni matvörumarkaðarins felast í að halda prósentubilum milli tegunda verzlana eftir þjónustustigi þeirra, en ýta öllu verðlaginu svo hægt upp á við, að enginn taki eftir því meðan það er að gerast. Þannig hefur matvara hækkað um 6% á einu ári.

Forsætisráðherra hefur af annarlegum ástæðum tekið undir þessa lýsingu á ástandi matvörumarkaðarins. Það hentar honum að sjá með röntgenaugum, þegar meintir óvinir eru að maka krókinn, en setja kíkinn jafnan fyrir blinda augað, þegar kolkrabbinn þarf að fita sig.

Þjóðhagsstofnun og Seðlabankinn áttu í ársbyrjun að geta séð fram á meginhluta fasteignaverðbólgunnar, alla matvöruverðbólguna og hluta benzínverðbólgunnar. Verðbólguspár þessara stofnana í upphafi árs stöfuðu annað hvort af fáfræði eða húsbóndahollustu.

Nú er fyrri forstjóri kominn aftur til Þjóðhagsstofnunar og eðlilegri hljóð farin að heyrast þaðan. Þar og annars staðar eru menn sammála um, að verðbólgan sé orðin svo grafalvarleg, að stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða til að hægja á framkvæmdagleði þjóðarinnar.

Þegar er ljóst, að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun og Reyðarfjarðarálver verða eins og eldur á olíu núverandi verðbólgu. Þessar framkvæmdir eru því þjóðhagslega óhagkvæmar um þessar mundir, burtséð frá kenningum um, að þær séu almennt séð úreltar og ekki vistvænar.

Vextir eru óhjákvæmilega farnir að hækka og munu halda áfram að hækka, þótt vaxtastig sé hér þegar komið himinhátt yfir það, sem þekkist í nágrenninu. Með háum vöxtum á að dempa framkvæmdagleðina. Þetta er gamalkunnugt lyf, sem hefur miklar aukaverkanir.

Við verðum á næstu misserum að borga brúsann af of lágum verðbólguspám í byrjun kosningaárs og tilheyrandi frestun aðgerða fram í óefni líðandi stundar.

Jónas Kristjánsson

DV