Ógnvaldur beygir sig

Greinar

Forsætisráðherra varð að beygja sig. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins verður seldur í opnu útboði, þar sem hver aðili eða hópur skyldra aðila má ekki kaupa meira en 6%. Þetta þýðir, að fleiri aðilar en kolkrabbinn einn geta tekið þátt í að bjóða í hlutabréfin.

Forsætisráðherra hafði sagt, að skammta bæri aðgang að kaupunum með forvali og að selja bæri 51% bankans til samstæðs hóps. Þetta var ávísun á, að kolkrabbinn einn, undir forustu Eimskipafélagsins, hefði burði til að bjóða í bréfin. Þetta var gamla einkavinavæðingin.

Skoðun forsætisráðherra var sett fram sem viðbrögð við sölu Kaupþings og sparisjóðanna á fjórðungi bankans til fyrirtækja utan kolkrabbans. Forsætisráðherra var að segja fjármálafólki, að hann gæti með handafli stýrt einkavæðingunni í farveg einkavinavæðingar.

Það eina, sem situr eftir af innrás forsætisráðherra í bankageirann, er ákvörðun um að selja afganginn af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins í einu lagi. Áður hafði verið gert ráð fyrir, að það yrði gert í áföngum til að fjölga bjóðendum og hækka tilboð þeirra.

Athyglisvert er, að togstreitan um aðferðafræði einkavæðingarinnar snýst ekki um, hvernig megi fá sem mesta peninga í ríkiskassann, heldur hvernig megi haga handafli á þann hátt, að sumir hafi betri aðstöðu en aðrir til að bjóða í hlutina. Þannig er Ísland enn.

Forsætisráðherra hefur í vaxandi mæli leikið hlutverk ógnvalds. Hann vill hafa neitunarvald um skipun mikilvægustu starfa atvinnulífsins og geta skipað fyrirtækjum landsins til sætis við veizluborð leifanna af skömmtunarkerfi fyrri áratuga. Annars reiðist hann.

Margir skjálfa af tilhugsun um reiði forsætisráðherra. Þeim fer þó fjölgandi, sem kæra sig kollótta um, hvort þeir séu í náðinni eða ekki. Atvinnulífið er orðið svo fjölbreytt, að einn kolkrabbi og einn forsætisráðherra geta ekki lengur ráðið ferðinni í stóru og smáu.

Samkvæmt skoðanakönnunum er almenningur ánægður með núverandi forsætisráðherra, sem sameinar hlutverk landsföður og ógnvalds. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að Davíð Oddsson geti skipað þetta virðingarsæti eins lengi og hann kærir sig um.

Þjóðfélagið hefur hins vegar breytzt svo mikið, að allt vald er ekki lengur á einum stað. Landsfeður geta ekki lengur skammtað aðgang að öllum kjötkötlum, sem máli skipta. Þeir geta ekki stýrt umræðunni í þjóðfélaginu. Þeir geta bara ráðið vini sína í opinber embætti.

Hlutfallslegt vægi ríkisvaldsins hefur minnkað. Menn geta leyft sér að sitja ekki og standa eins og forsætisráðherra skipar fyrir. Auðvitað reiðist hann, þegar valdið sáldrast niður milli fingra hans og hótanir um handafl ganga ekki lengur upp. En lífið heldur áfram.

Valddreifingin í þjóðfélaginu minnkar ekki einokun og fáokun á hverju sviði fyrir sig. En hún dregur þræðina úr höndum hinna fáu útvöldu og dreifir þeim á fleiri hendur. Lýðræði skánar og þjóðarhagur eflist við fjölgun á miðstöðvum valda og ákvarðana í þjóðfélaginu.

Opið útboð og reglur um hámarkskaup skyldra aðila í sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er dæmi um, að stjórnmálin eru að missa tökin á fjármálunum og að hugsanlegt er orðið, að einkavinavæðingin breytist smám saman í einkavæðingu að útlendum hætti.

Menn hafa heyrt hótanir landsföðurins um beitingu handafls og dregið sínar ályktanir. Þegar brestir hlaupa í ógnvaldið, hljótast af því keðjuverkanir.

Jónas Kristjánsson

DV