Saumað að tóbaki

Greinar

Þriggja áratuga rannsókn á rúmlega tuttugu þúsund Íslendingum hefur sýnt, að reykingar eru ein helzta dánarorsök landsmanna. Samanburður reykingafólks og reykleysingja sýnir, að tóbak veldur ekki aðeins krabbameini, heldur líka hjarta- og æðasjúkdómum.

Rannsóknin sýnir, að reykingar margfalda líkur á ótímabærum dauða. Þær auka einnig líkur á ömurlegum aðdraganda dauðans, þar á meðal uppskurðum, lyfjameðferðum og langlegum, því að sjúkdómarnir, sem tóbakið framkallar, eru ekki lambið að leika sér við.

Sagan um glataða soninn í Biblíunni fær byr undir báða vængi í rannsókninni. Þeir, sem hætta að reykja, hreinsast að innan og bæta mörgum heilbrigðum árum við ævi sína. Þetta gildir um alla aldurshópa, en græddu árin eru því fleiri, sem menn hætta fyrr að reykja.

Hins vegar er hægar sagt en gert að hætta að reykja eins og margir þekkja. Nikótínið í tóbaki er eitt allra skæðasta fíkniefni, sem þekkist. Það ánetjar menn hratt og heldur fast í þá. Alkóhól og ýmis ólögleg fíkniefni eru ekki eins vanabindandi og tóbakið.

Krabbameinsfélagið, Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og ýmsir aðrir halda námskeið fyrir þá, sem vilja hætta að reykja. Sjálfsagt er fyrir fólk að fá sérfræðilega aðstoð af slíku tagi, ef reynslan sýnir, að ekki ganga upp tilraunir þess til að hætta að reykja af eigin rammleik.

Umburðarlyndi umhverfisins gagnvart tóbaki fer ört minnkandi. Á flestum vinnustöðum má ekki lengur reykja. Víða eru heilu húsin reyklaus og sums staðar má ekki heldur reykja á lóðunum. Fólk er farið að tala opinskátt um vondu lyktina af reykingafólki.

Bannað er að auglýsa tóbak hér á landi, en nýliðar komast í tæri við erlendar auglýsingar, sem sýna glansmynd af Marlboro-manninum, er síðan dó kvalafullum dauða úr krabbameini. Þannig fylla nýir tóbaksþrælar skörð þeirra, sem hætta eða veslast upp.

Í Bandaríkjunum hafa verið lögð fram rækileg og fjölbreytt gögn, sem sýna, að tóbaksframleiðendur hafa áratugum saman vitað um skaðsemi tóbaks og meira að segja haft samráð um að auka nikótínið í tóbakinu til að fíknin nái sem fyrst tökum á nýliðum í reykingum.

Með stórfelldum greiðslum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna hefur tóbaksfyrirtækjum til skamms tíma tekizt að stunda glæpi sína í skjóli stjórnmálanna, einkum í Bandaríkjunum, en einnig í Evrópu. Nú eru teikn á lofti um, að múturnar dugi ekki lengur.

Með rúmlega 200 milljarða dollara dómsátt hefur tóbaksfyrirtækjunum tekizt að forða sér frá dómi í máli, sem samtök ríkja í Bandaríkjunum höfðuðu gegn þeim. Einstaklingar og samtök einstaklinga eru farin að vinna tugmilljóna dollara skaðabætur í málaferlum.

Nú er sjálf Bandaríkjastjórn komin á vettvang og krefst skaðabóta fyrir útlagðan heilbrigðiskostnað af völdum reykinga. Þar er um að ræða 500 milljarða dollara kostnað á aldarfjórðungi. Því er að þrengjast hringurinn um fíkniefnagreifa tóbaksiðnaðarins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum geta varla vikizt undan almennu banni við tóbaksauglýsingum. Á endanum komast þau ekki heldur hjá því að sækja ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna til persónulegrar ábyrgðar fyrir eindreginn brotavilja þeirra, skjalfestan í gögnum.

Hér á landi vakna spurningar um málsaðild ríkisvaldsins, sem hefur heildsölu eins eitraðasta fíkniefnis veraldar að meiriháttar tekjulind ríkissjóðs.

Jónas Kristjánsson

DV