Samfylkingin sefur og sefur

Greinar

Samfylkingin þarf strax að taka sig í gegn, koma straumlínulagi á málefni sín og velja sér nýja forustu. Lýðræðið gerir ráð fyrir, að stjórnarandstaða sé virk og geti veitt stjórnvöldum aðhald, en Samfylkingin liggur meira eða minna í dvala vikum og mánuðum saman.

Vandi Samfylkingarinnar felst ekki í, að fólk og fjölmiðlar tali um þetta og furði sig á niðurlægingu hennar. Vandi hennar felst í niðurlægingunni sjálfri, en ekki í umtali annarra um hana. Því miður er algengt, að fólk og félög í afneitun rugli þessu tvennu saman.

Samfylkingin er í afneitun. Forustusveit hennar og virkir félagsmenn neita að horfast í augu við raunveruleikann og kenna öllum öðrum um, hvernig fyrir henni er komið. Fjölmiðlarnir eru sagðir vondir við hana og ekki sýna henni næga biðlund og skilning.

Ekklar og ekkjur geta komizt upp með sálgæzluþvælu af þessu tagi, en stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn kemst ekki upp með að velta sér upp úr skorti á biðlund og skilningi annarra. Ríkisstjórnin er í ýmsum vondum málum, sem kalla strax á virka stjórnarandstöðu.

Formaður Samfylkingarinnar var vel látin og vinsæl, en hefur greinilega ekki heilsu og úthald til að standa í daglegri varðstöðu og eftirliti. Vikum saman er hún meira eða minna frá vinnu og hefur þess á milli lítið frumkvæði, svarar bara spurningum fjölmiðla.

Samfylkingin hefur sem stjórnmálaafl nánast óheftan aðgang að fjölmiðlum. Hún þarf talsmann, sem heldur daglega uppi umræðu og andófi. Núverandi ástand er með öllu óþolandi og hefur þegar leitt til, að Græna vinstrið er tekið við sem eiginleg stjórnarandstaða.

Seinagangur Samfylkingarinnar við að ganga frá skipulagsmálum sínum og forvera sinna er öllum ljós, sem á horfa. Flokkar og fyrirtæki eiga ekki að tala um biðlund og skilning, heldur taka til hendinni. Annars koma aðrir og taka upp merkið. Þannig er lífið.

Það gengur ekki, að sveitir gamalla forustumanna úr hálfdauðum og dauðum stjórnmálaflokkum vafri um í nafni Samfylkingarinnar og tali út og suður um málefni hennar og þjóðarinnar, hver með sínu kreddunefi. Fólk missir trú á pólitík, sem birtist á þennan hátt.

Stjórnarandstaða felst í mörgu fleiri en þátttöku í málfundum Alþingis hluta úr ári. Allt árið þarf daglega að koma sjónarmiðum á framfæri í fjölmiðlum og á fundum um allt land. Þegar Alþingi situr ekki, á að vera góður tími til að sinna slíkum þáttum stjórnarandstöðu.

Samfylkingin hefur sóað tíma sínum í ársþriðjung. Hún hefur hreinlega legið í dvala í allt sumar. Hún virðist engu nær um samræmingu sjónarmiða og hún virðist engu nær um það, hver eigi að taka að sér að leiða hana og hafa forustu um stjórnarandstöðu.

Á meðan lekur niður traust fólks á öllum, sem koma að forustu Samfylkingarinnar eða eru orðaðir við hana. Margrét Frímannsdóttir er komin í mínus í könnunum, sömuleiðis Jóhanna Sigurðardóttir og hillingin mikla í eyðimörkinni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Annað forustufólk Samfylkingarinnar kemst ekki á blað, jafnvel ekki það, sem er á kaupi hjá ríkinu sem stjórnmálamenn árið um kring. Fundarsalir og fjölmiðlar eru lausir árið um kring. Lífið í landinu leggst ekki í dá. Það er bara Samfylkingin sem sefur og sefur.

Sumir áhrifamenn í Samfylkingunni hafa séð þetta, en tala fyrir daufum eyrum þeirra, sem eru svo ánetjaðir afneituninni, að þeir sjá ekki eymdina og volæðið.

Jónas Kristjánsson

DV