Hagkvæmni og fáokun

Greinar

Nú vilja allir ná svokallaðri hagkvæmni stærðarinnar. Í öllum geirum atvinnulífsins hafa fyrirtæki verið að sameinast eða éta hvert annað til að stækka. Eftir fleiru er að slægjast en hagkvæmninni einni, því að einokun er framtíðardraumur þeirra, sem berjast á markaði.

Lengst af sáldrast hagnaðurinn af samruna fyrirtækja út í þjóðfélagið, einkum í lægra vöruverði og hærri sköttum stækkuðu fyrirtækjanna. Að lokum snýst dæmið við, því að stækkuðu fyrirtækin verða ráðandi á markaði og hagnýta sér þá stöðu til hins ýtrasta.

Á nokkrum árum hefur markaðurinn þrengst svo hér á landi, að litlar líkur eru á, að smáfiskar geti ógnað veldi stórhvelanna. Ekki tókst að stofna hér nýtt olíufélag, þótt miklir peningar væru að baki, og ekki tekst heldur að stofna hér nýtt tryggingafélag.

Kanadískt olíufélag skoðaði málin vel, en treysti sér að lokum ekki til að ryðjast inn á markaðinn. Fyrirtæki á vegum Llyods hefur lyktað af markaði bílatrygginga á vegum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, en virðist ekki telja mikla framtíð vera í þeim viðskiptum.

Ekki hafa rætzt vonir um, að erlendir bankar setji hér upp útibú til að græða á að geta boðið upp á minni vaxtamun en íslenzku bankarnir beita viðskiptamenn sína í skjóli fáokunar. Viðskipti á Íslandi eru svo lítil, að útlendir bankar nenna ekki að standa í þeim.

Við sitjum því í súpunni. Annars vegar þurfa íslenzk fyrirtæki að stækka til að verða jafn hagkvæm og hliðstæð fyrirtæki í útlöndum. Hins vegar fá íslenzku fyrirtækin ekki samkeppni að utan, af því að útlend fyrirtæki hafa ekki tíma til að sinna litlum markaði.

Við þurfum hér á landi að þola færri og stærri fyrirtæki án þess að njóta þess hagræðis, að annað hvort úr grasrótinni eða að utan komi ný samkeppni til skjalanna til að halda verðandi fáokurum og einokurum í skefjum. Hörð samkeppni breytist því hratt í fáokun.

Ef við lítum yfir atvinnulífið í heild, sjáum við, að fáokun ríkir á flestum sviðum. Samgöngur í lofti og á láði hafa lengi lotið lögmálum fáokunar og hún hefur tekið yfir vöruflutninga á landi. Fáokun í bönkum, tryggingum og olíuverzlun hvílir á gömlum merg.

Að undanförnu hefur fáokun verið að rísa í smásölu matvæla og í heildsölu grænmetis. Slík fáokun hefur frá gamalli tíð ríkt í annarri heildsölu landbúnaðarafurða. Framleiðslufyrirtæki og sölufélög í sjávarútvegi eru sem óðast að sameinast og lyfjaverzlun enn hraðar.

Erlend markaðshagfræði segir, að hagkvæmni stærðarinnar sáldrist út í þjóðfélagið. Hún gerir ráð fyrir, að upp komi ný samkeppni að utan eða að neðan, ef fyrirtæki hafi stækkað svo og þeim hafi fækkað svo, að þau geti kippt markaðslögmálunum úr sambandi.

Hins vegar þarf töluverða trúgirni til að halda, að hér muni rísa nýtt skipafélag, nýtt flugfélag, nýtt vöruflutningabílafélag, nýtt tryggingafélag, nýtt olíufélag, ný stórmarkaðakeðja eða nýtt dreifingarfélag innlendra matvæla á borð við mjólkurvörur, kjöt og grænmeti.

Sumpart kemur ríkið í veg fyrir þessa möguleika, til dæmis með innflutningsbanni og ofurtollum á matvælum. Sumpart stuðlar það að fákeppni, til dæmis með því að reyna að sameina ríkisbanka í þágu helztu fáokunarhópanna, kolkrabbans og smokkfisksins.

Alvarlegasta orsök fákeppni er þó, að gömlu fáokunarhóparnir eru umbjóðendur íslenzkra stjórnmála og sjá um fjárhagslegan rekstur ríkisstjórnarflokkanna.

Jónas Kristjánsson

DV