Það er þér að kenna

Greinar

Nú eru síðustu forvöð fyrir áhugafólk um verndun Eyjabakka að reyna að hafa þau áhrif á þingmenn, að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat, sem þýðir, að umhverfisþættir orkuversins verði metnir á sama hátt og um nýskipulagða virkjun væri að ræða.

Auðvitað er umhverfissinnum sjálfum að kenna, ef þeir beita ekki öllum tiltækum ráðum til að hafa áhrif á þingmenn kjördæmis síns eða flokks síns. Þótt þingmenn séu hallir undir flokksaga, þykir þeim samt óþægilegt að troða illsakir við kjósendur og samflokksmenn.

Ljóst er, að ríkisstjórnin ætlar að knýja virkjunina í gegn á Alþingi með einfaldasta hætti. Iðnaðarráðherra hyggst leggja fram einfalda þingsályktunartillögu um málið og láta hana fara til skoðunar í iðnaðarnefnd en ekki í umhverfisnefnd, þar sem fyrirstaða er meiri.

Með þessari tæknilegu brellu er ráðherrann í leiðinni að segja kjósendum, að deilumálið um Eyjabakka sé iðnaðarmál, en ekki umhverfismál. Það segir auðvitað meira um ráðherrann og stuðningsmenn hans á Alþingi en sagt hefur verið í löngu máli í fjölmiðlum.

Meirihluti ríkisstjórnarinnar er svo mikill, að hún hefur efni á að eitt og eitt þingmannsatkvæði kvarnist úr kantinum, þegar þingsályktunartillagan verður afgreidd. Sjálfstæðisflokkurinn mun taka ábyrgð á málinu til jafns við Framsóknarflokkinn, sem forustuna hefur haft.

Þegar hefur komið fram í stefnuræðu forsætisráðherra, að hann telur umhverfissinna vera öfgamenn. Úr sögunni er því draumur margra sjálfstæðismanna, að hann mundi einhvers staðar í ferli málsins segja við iðnaðarráðherra sinn: Svona gerir maður ekki.

Ef umhverfissinnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sauma nú ekki svo um munar að þingmönnum kjördæma sinna, verður ekkert lögformlegt umhverfismat. Þar með færist víglínan frá umhverfismatinu að virkjuninni sjálfri, því að stríðið heldur áfram.

Austfirzkir umhverfissinnar leika lykilhlutverk í þeirri stöðu. Þeir hafa sýnt fram á og geta haldið áfram að sýna fram á, að áhugi á umhverfismálum sé ekkert einkamál þeirra Íslendinga sem búa utan keisaradæmis öfgasinnaðasta umhverfisóvinar ríkisstjórnarinnar.

Einnig er brýnt, að umhverfissinnar beini athygli sinni í meira mæli að norska ríkisfyrirtækinu Norsk Hydro, sem þykist vera umhverfisvænt heima fyrir, en stuðlar hér að umhverfisspjöllum með því að setja tímaþrýsting á viðmælendur sína í Landsvirkjun.

Meðan eitt ráðuneytið í Noregi kostar það tölublað Arctic Bulletin hjá World Wildlife Fund, sem snýst að mestu um verndun Eyjabakka, þá er annað ráðuneyti að leyfa ríkisfyrirtæki að stunda þau umhverfisspjöll á Íslandi, sem því er bannað að stunda í Noregi.

Framferði Norsk Hydro hlýtur að verða viðkvæmt hjá Norðmönnum, ef þeir átta sig á, hvað er að gerast í nafni Noregs. Því er augljóst, að beina þarf meiri athygli þeirra að málinu, til dæmis með mótmælaaðgerðum í Osló hjá viðkomandi ráðuneyti og hjá Norsk Hydro.

Hvort sem um er að ræða þrýsting á innlenda stjórnmálamenn eða virkjun almenningsálits í Noregi gegn áformum Norsk Hydro, þá er málið í höndum fólksins sjálfs. Annaðhvort lætur það ríkisstjórnarflokkana valta yfir sig eða það tekur til hendinni.

Ef vilji meirihluta þjóðarinnar verður hunzaður í máli þessu, er það sofandahætti meirihluta þjóðarinnar að kenna, en ekki bara Finni, Halldóri og Siv.

Jónas Kristjánsson

DV