Í gróðurhúsi ríkisvaldsins

Greinar

Ríkisvaldið verndar ekki íslenzk dagblöð með því að leggja steina í götu erlendra dagblaða. Það tollar ekki erlend dagblöð og skammtar ekki innflutning þeirra eftir þeim dögum, sem innlend dagblöð koma ekki út. Það hefur engin afskipti af þessum frjálsa markaði.

Ríkisvaldið verndar hins vegar íslenzkt grænmeti með því að leggja steina í götu erlends grænmetis. Það ofurtollar erlent grænmeti og skammtar innflutning þess eftir árstíðum. Innlent grænmeti er ekki frjáls markaðsvara, heldur ríkisrekin landbúnaðarafurð.

Allir geta keypt erlend dagblöð eins og raunar erlend tímarit og erlendar bækur á sömu kjörum af hálfu ríkisins og innlend dagblöð, innlend tímarit og innlendar bækur. Dagblöð eru hluti af frjálsu markaðshagkerfi, þar sem neytandinn getur valið það, sem hann vill.

Verðlag dagblaða ræðst af markaði, þar sem dagblöð keppa innbyrðis og við erlend dagblöð, við aðra fjölmiðla á borð við útvarp og sjónvarp. Ef verðlag innlendra dagblaða fer úr skorðum að mati notenda, geta þeir snúið sér í auknum mæli að öðrum fjölmiðlum.

Verðlagi grænmetis er hins vegar fyrst og fremst stjórnað af ríkisvaldinu, sem setur því ramma með ofurtollum. Síðan tekur markaðsráðandi heildsali við valdinu og fyllir verðlagsrammann. Neytendur geta ekki snúið sér neitt annað með grænmetiskaup sín.

Reynsla áranna og áratuganna sýnir, að notkun dagblaða er mikil og jöfn hér á landi. Kaup og lestur á íslenzkum dagblöðum er með því mesta, sem gerist í heiminum og hefur haldizt þannig um langan aldur. Verðlag dagblaða er því í markaðslegu jafnvægi.

Til dæmis má nefna, að lestur DV hefur frá upphafi mælinga verið nokkurn veginn óbreytt hlutfall af mannfjölda. Sveiflan milli lágmarks og hámarks hefur verið innan við 5%. Þetta sýnir markað, sem er í meira jafnvægi en almennt gerist við frjálst verðlag.

Reynslan sýnir hins vegar, að ríkisreksturinn, ofurtollarnir og okurverðið á grænmeti hefur leitt til mun minni neyzlu grænmetis hér á landi en í nokkru öðru landi, sem vitað er um. Íslendingar eru hálfdrættingar á við siðmenntaðar þjóðir á þessu mikilvæga sviði.

Grænmeti er helmingi minni þáttur í mataræði Íslendinga en hann ætti að vera að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar í París. Það stafar auðvitað af því, að fólk sparar það. Verðlag grænmetis er ekki í markaðslegu jafnvægi eins og verðlag dagblaðanna.

Fyrr eða síðar springur blaðran, sem íslenzk garðyrkja lifir í. Fyrr eða síðar neyðist hún til að búa við sama rekstrarumhverfi og íslenzk dagblöð og nánast öll önnur vara í landinu. Það endar með, að erlend ríki neita að kaupa af okkur fisk, ef við opnum ekki markaðinn.

Það er óhollt fyrir innlenda garðyrkju að lifa í gerviheimi, sem getur opnast fyrir erlendum vindum, þegar hagsmunir utanríkisviðskipta knýja ríkisvaldið til að hætta afskiptum af grænmetismarkaði, knýja það til að leggja niður innflutningsskömmtun og ofurtolla.

Dagblöðin hafa hins vegar ekkert að óttast, því að þau hafa alltaf lifað við opna glugga, þar sem erlendir vindar blása, rétt eins og meirihluti innlenda hagkerfisins. Þau hafa lagað sig að samkeppnisaðstæðum, meðan innlend garðyrkja felur sig í gróðurhúsi ríkisvaldsins.

Almenningur veit, að markaðshagkerfið framleiðir velmegun. Fólk lætur ekki gabbast af áróðri þeirra, sem vilja fá að sofa áfram utan þessa hagkerfis.

Jónas Kristjánsson

DV