Einangrun og ofurtortryggni

Greinar

Bandaríska öldungadeildin hefur rýrt friðarlíkur í heiminum og aukið einangrun landsins með því að hafna alþjóðasamningnum um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þessi samningur var gerður að undirlagi Bandaríkjanna sjálfra og með ærinni fyrirhöfn.

Öldungadeildin hefur gefið grænt ljós á frekari tilraunir Indverja, Pakistana og annarra þeirra, sem vilja gera sig breiða í hermálum. Hún hefur lýst frati á alla helztu bandamenn Bandaríkjanna í öryggismálum og ögrað Rússum og Kínverjum að ástæðulausu.

Í kjölfarið hefur Rússland þegar hafnað ósk Bandaríkjanna um breytingu á sáttamála þjóðanna um eldflaugavarnir og mun hafna vestrænum ráðum um friðsamlegri framgöngu í Tsjetsjeníu. Kína mun herða truflanir sínar á hernaðarlegu jafnvægi í austanverðri Asíu.

Verst er, að öldungadeildin hefur sýnt stjórnvöldum um allan heim, að engum tilgangi þjóni að gera skriflega samninga við Bandaríkin, af því að þingið muni ekki virða þá. Allt alþjóðlegt samningaferli verður erfiðara en áður, til dæmis á sviði heimsviðskipta og tolla.

Í nóvember hefst ný lota í alþjóðaviðræðum á vegum Heimsviðskiptastofnunarinnar um lækkun tolla og annarra viðskiptahafta til eflingar velmegunar í heiminum og ekki sízt í Bandaríkjunum, sem jafnan hafa staðið sig vel í framleiðslu fyrir alþjóðlegan markað.

Þessi lota er nú orðin marklaus, af því að málsaðilar sjá, að einangrunarsinnar og verndarsinnar á Bandaríkjaþingi muni koma í veg fyrir staðfestingu hvaða samnings, sem gerður yrði. Samningamönnum hafa því fallizt hendur nokkrum vikum áður en lotan hefst.

Bandaríkjaþing hefur árum saman komið í veg fyrir, að landið standi við skuldbindingar sínar um greiðslur til Sameinuðu þjóðanna. Er nú réttilega komið að því í lok þessa árs, að Bandaríkin missi atkvæðisrétt sinn hjá samtökunum og rýri áhrif sín á alþjóðavettvangi.

Vaxandi einstefna, einangrunarstefna og ofurtortryggni Bandaríkjaþings á sér hljómgrunn meðal kjósenda, sem telja utanríkismál litlu skipta og telja þar á ofan, að útlendingar séu jafnan að reyna að hafa fé af Bandaríkjunum, oft með lævíslegum hætti.

Þeirri skoðun eykst fylgi, að Bandaríkin eigi að hætta afskiptum af deilumálum úti í heimi og breyta sér í lokað virki undir kjarnorkuregnhlíf. Kjósendur og þingmenn virðast ekki gera sér grein fyrir, hvað einangrunin muni kosta bandaríska útflutningsatvinnuvegi.

Kjósendur og þingmenn í Bandaríkjunum lifa í óraunverulegum heimi, þar sem bæði er hægt að eiga kökuna og éta hana. Slík viðhorf eru að vísu algeng um allan heim, en hafa hvergi á Vesturlöndum fengið eins mikinn byr undir báða vængi og í Bandaríkjunum.

Völdum á heimsvísu fylgja tækifæri til að treysta viðskiptahagsmuni, svo sem sölu á kvikmyndum og tölvubúnaði. Einstefna, einangrun og ofurtortryggni leiða hins vegar til þess, að önnur ríki og ríkjasamtök hefta bandarísk útflutningstækifæri og loka þeim.

Allir tapa á þeim viðhorfum, sem hér hefur verið lýst og Bandaríkjamenn sjálfir tapa mest. Verst er þó, að Vesturlönd sem heild veikjast af þessum völdum og hafa minni möguleika en áður á að framkalla friðsamlegt svigrúm til lýðræðis og viðskipta sem allra víðast.

Í kjölfar bandaríska virkisins rís evrópska virkið og hliðstæð virki víðar um heim. Veröld okkar mun verða hættulegri en hún hefur verið síðustu áratugi.

Jónas Kristjánsson

DV