Fram í rauðan dauðann

Greinar

Líkurnar á, að hér á landi hafi verið geymd kjarnavopn árin 1956­1959 hafa aukizt lítillega við birtingu ritskoðaðra gagna úr bandaríska hermálaráðuneytinu, en ekki svo mjög, að sannað megi teljast. Deilan heldur því áfram, meðan ráðuneytið ritskoðar gögn sín.

Ísland er að vísu líklegt land milli Haiwai og Japans í stafrófsröðinni, en ætti ekki að vera á þeim lista, heldur á lista yfir Evrópulönd. Áhugaleysi fræðimannanna, sem grófu upp gögnin, á þessum þætti málsins vekur efasemdir um, að þeir hafi vald á viðfangsefninu.

Hitt skiptir svo alls engu í máli þessu, hvað stjórnvöld fullyrða hér á landi eða vestan hafs. Að trúa því, sem stjórnvöld segja í viðkvæmum málum, sem varða almenning, er álíka barnalegt og að trúa því, sem ráðuneytisstjórinn segir í þáttunum: “Já, ráðherra”.

Við höfum nýlegt dæmi um slíkt. Á þriðjudaginn í þessari viku kom í ljós, að lyf, sem hermönnum í Persaflóastríðinu var gefið til varnar hugsanlegu eiturgasi, hafði varanlegar aukaverkanir, sem fela í sér syfju, vöðvaþreytu, minnistap og svefntruflanir.

Fljótlega eftir Persaflóastríðið 1991 komu upp grunsemdir um þetta, studdar fræðilegum athugunum. Bandarísk stjórnvöld neituðu þessum skoðunum staðfastlega og harðlega og hafa meðal annars látið framleiða fyrir sig rannsóknir, sem “afsanna” ásakanirnar.

Efasemdarmenn héldu samt áfram að stinga prjónum í málið. Það endaði með, að á þriðjudaginn voru birtar niðurstöður rannsókna, með aðild hermálaráðuneytisins, sem sýna á óyggjandi hátt, að 250.000­300.000 hermenn við Persaflóa voru látnir nota skaðlegt lyf.

Bandarísk stjórnvöld hafa fram í rauðan dauðann neitað að viðurkenna þetta og eru raunar enn að malda í móinn af veikum mætti, enda eiga þau yfir sér málshöfðun tugþúsunda hermanna, sem biðu varanlegan skaða af völdum lyfsins pyridostigmine bromide.

Vinnubrögð þessi eru engan veginn bundin við Bandaríkin. Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi, Belgíu og Frakklandi hafa beðið varanlegan hnekki af uppljóstrunum þessa árs um, að þau hafi látið undir höfuð leggjast að segja almenningi frá hættulegum matvælum.

Fyrir bragðið er ekki lengur neinu trúað, sem heilbrigðisyfirvöld segja um hollustu eða óhollustu matvæla í löndum þessum. Til dæmis mundi ekki þýða að segja Evrópumönnum, að geisluð matvæli séu hættulaus, enda eru evrópsk stjórnvöld hætt að fullyrða slíkt.

Við þekkjum hér á landi, að heilbrigðisnefndir og yfirdýralæknir hafa með óbeinni aðstoð nýs landlæknis og Hollustuverndar ríkisins reynt að gera lítið úr sprengingu í kamfýlusýkingum á þessu ári og reynt í staðinn að gæta sunnlenzkra byggðahagsmuna.

Við vitum því hér á landi, að viðeigandi yfirvöld hafa tilhneigingu til að taka sérhagsmuni fram yfir heilsufar almennings. Þetta er hluti alþjóðlegs fyrirbæris, sem hefur verið sett fram á skiljanlegan hátt í ýktu formi í þáttaröðinni um brezka ráðuneytisstjórann.

Staðreyndin er einfaldlega sú, að algengt er um allan heim, að embættismenn telji það siðferðislega skyldu sína að ljúga að almenningi. Þegar upp kemst um þá, yppta þeir bara öxlum og snúa sér að næstu blekkingum. Embættismenn verða því aldrei nothæf heimild.

Það svarar því engum spurningum um kjarnavopn á Íslandi, þótt bandarísk stjórnvöld lýsi yfir, að nafn Íslands sé ekki á tilteknum, ritskoðuðum lista.

Jónas Kristjánsson

DV