Framsókn skrapar botninn

Greinar

Fylgi Framsóknarflokksins mældist í sögulegu lágmarki í skoðanakönnun DV fyrir helgina, rúmlega 14% fylgi, sem svarar til níu þingmanna í stað þeirra tólf, sem flokkurinn fékk í kosningunum. Flokkurinn má muna fífil sinn fegri frá 20­25% fylgi fyrri áratuga.

Flokkurinn hefur í haust tapað fylginu, sem formaður hans náði með því að ljúga því ítrekað, að flokkurinn mundi setja milljarð í fíkniefnavarnir. Hann hefur í haust tapað fylginu, sem formaðurinn náði með því að ljúga því, að sátta yrði leitað um Eyjabakka.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki lengur neitt grænt fylgi og sáralítið þéttbýlisfylgi. Hann er þekktur sem baráttuflokkur sægreifakerfisins með kvótaerfingja í formannsstóli. Hann er þekktur fyrir að hafa gefið bandarísku fyrirtæki sjúkraskýrslur þjóðarinnar.

Eftir sitja þeir, sem telja sig hafa hag af flokknum sem spilltum miðjuflokki, er situr nánast alltaf í ríkisstjórn og hefur aðstöðu til að hlúa að einkavinum sínum, allt frá heilum stéttum eða byggðum niður í að gera gamla tugthúslimi að háttsettum embættismönnum.

Framsóknarflokkurinn notaði flokka langmest fé í kosningabaráttunni, um 60 milljónir króna. Það er að minnsta kosti 40 milljónum meira en flokkur af hans stærð getur aflað sér án þess að fara út í kaup og sölu á aðstöðu sinni sem áskrifanda að ríkisstjórn.

Spillingin ein dugar til að halda flokknum í um það bil 10% fylgi, því að margir eru reiðubúnir til að láta atkvæði sitt í skiptum fyrir raunverulega hagsmuni, meinta hagsmuni eða von í hagsmunum. Spillingarþráin gildir jafnvel um hluta heilla stétta og byggða.

Þótt Framsóknarflokkurinn haldi áfram að tapa og sígi niður í spillingarfylgið eitt, þá getur hann áfram haldið aðstöðu sinni sem miðjuflokkur, er semur til hægri eða vinstri eftir því, hvað væntanlegt stjórnarsamstarf er líklegt til að gefa flokknum mikil færi á að skaffa.

Þetta minnir á, hversu brýnt er orðið, að fjármál íslenzkra stjórnmálaflokka verði gerð gegnsæ á sama hátt og tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þar sem upplýst er einu sinni eða oftar á ári hverju um greiðslur og greiðsluígildi allra hagsmunaaðila.

Jónas Kristjánsson

DV