Rússagullið staðfest

Greinar

Fundizt hafa rússnesk skjöl frá sovéttímanum, sem staðfesta, að sendiráð Sovétríkjanna greiddi forvera Alþýðubandalagsins, Sameiningarflokki alþýðu, Sósíalistaflokknum nokkrum sinnum töluverðar fjárhæðir, samtals yfir tuttugu milljónir króna að núvirði.

Sósíalistaflokkurinn var því á mála hjá Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins, þegar þáverandi útþenslustefna hins austræna veldis ógnaði öryggishagsmunum Vesturlanda og þar á meðal Íslands, sem var óþægilega berskjaldað á siglingaleiðum frá sovézkum flotahöfnum.

Mikilvægt er að reyna að koma á samstarfi við rússneska aðila um frekari rannsókn fylgiskjala til að leiða í ljós, hverjir sóttu um mútuféð með hvaða hætti, hvernig það var afhent hverjum í sendiráðinu og hvernig það var síðan notað í þágu Sósíalistaflokksins.

Mál þetta minnir líka á, hversu brýnt er orðið, að fjármál íslenzkra stjórnmálaflokka verði gerð gegnsæ á sama hátt og tíðkast annars staðar á Vesturlöndum, þar sem upplýst er einu sinni eða oftar á ári hverju um greiðslur og greiðsluígildi allra hagsmunaaðila.

Jónas Kristjánsson

DV