Frelsi flytur fólk og fé

Greinar

Því frjálsari sem flutningar fólks og fjármagns verða á Vesturlöndum, þeim mun brýnna verður, að Ísland haldi áfram að vera samkeppnishæft land. Ögrun þróunarinnar magnast enn frekar af völdum vaxandi hlutdeildar þekkingariðnaðar, sem spyr ekki um landamæri.

Ísland þarf að vera samkeppnishæfur kostur í fjárfestingu. Töluvert af kvótagróða síðustu ára hefur lekið til útlanda og allt of lítið verið um freistingar fyrir erlent fjármagn. Með vaxandi auðsöfnun í þjóðfélaginu þarf að efla betri leiðir til ávöxtunar peninga innanlands.

Ísland þarf líka að vera samkeppnishæfur kostur í lífsgæðum. Töluvert hefur verið um þekkingarflótta frá landinu á undanförnum árum. Sumir sækjast eftir meiri tekjum, aðrir eftir kalifornísku loftslagi og flestir eftir nánu samfélagi við þekkingarmiðstöðvar heims.

Ísland býður samt lífsgæði. Ósnortin víðerni eru meiri hér en víðast hvar á Vesturlöndum, en stjórnvöld eru því miður fjandsamleg sem fyrr. Enn eru þó færi á að hindra, að Eyjabökkum verði fórnað í þágu stóriðju, sem Vesturlönd hafa sem óðast verið að losa sig við.

Höfuðborgarsvæðið er varnar- og sóknarlína átakanna um, hvort Ísland verður yfirleitt byggilegt á næstu öld. Á höfuðborgarsvæðinu veltur fjármagnið og þar starfar fólkið í þekkingargreinum framtíðarinnar. Í öðrum landshlutum er allt með hefðbundnari hætti.

Samþjöppun er mikil í eignarhaldi í sjávarútvegi eins og í öðrum greinum. Kvótinn er smám saman að leka suður, og þeir, sem seldu kvótann, eru smám saman að flytja suður eða jafnvel ennþá lengra. Spurningin er bara, hvort og hvar tekst að stöðva þessa strauma.

Ef einhver hluti Íslands getur orðið samkeppnishæfur við útlönd, þá er það höfuðborgarsvæðið. Það er nógu fjölmennt til að halda uppi ýmsum þægindum, sem menn hafa síður úti á landi. Þar er menning, skemmtun, þjónusta og fjölbreyttur félagsskapur við hæfi flestra.

Byggðavandinn á Íslandi felst ekki í, hvort þjóðin flytur suður eða ekki. Hann felst í, hvort þjóðin flytur af höfuðborgarsvæðinu til útlanda eða ekki. Víglína byggðavandans er ekki um Holtavörðuheiði eða Skeiðarársand. Hún liggur um Kvosina og Keflavíkurflugvöll.

Fjármagn og fólk verður ekki hindrað í að flytja til útlanda, ef hagar sýnast vera grænni þar en á suðvesturhorni landsins. Ekki hefur tekizt að hindra fjármagn og fólk í að flytja suður, þótt gríðarlegu fjármagni hafi verið varið til smábyggðastefnu af ýmsum toga.

Ögrun þróunarinnar verður ekki svarað með pólitísku handafli. Spurningin er bara, hvort hægt er að búa svo í haginn á höfuðborgarsvæðinu, að straumur fólks og fjármagns stöðvist þar, en flæði ekki áfram til útlanda. Þessari spurningu er er enn ekki hægt að svara.

Sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins munu gegna lykilhlutverki í byggðastefnu næstu aldar. Þau þurfa að geta boðið fólki lífsgæði í búsetu og þjónustu, skemmtun og menningu, sem valda því, að fólk langi ekki til að flytjast búferlum til útlanda, þótt það geti það.

Landsstjórnin gegnir enn stærra hlutverki. Hún má hvorki íþyngja fólki né fjármagni. Hún þarf að vera jákvæð í garð nýrra fyrirtækja og tækifæra á nýjum sviðum utan hefðbundinna greina. Og hún verður að efla lífsgæði, sem felast í lofti og vatni og víðáttum.

Fljótlega upp úr aldamótum mun koma í ljós, hvort við höfum burði til að standast ögrun nútímafrelsis og getum eflt búsetu manna á höfuðborgarsvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV