Gengissig skipstjóra

Greinar

Enginn nýr skipstjóri útskrifast á þessu ári, sumpart vegna breytinga á skipstjóranámi, en einnig vegna þess, að skipstjórn höfðar ekki eins mikið til ungra manna og hún gerði áður fyrr, þegar skipstjórar voru í manna mestum metum í flestum sjávarplássum landsins.

Nálægðin við valdið var meiri í þá daga, þegar unglinga dreymdi um að verða skipstjórar. Þá gerðust sumir landsfrægir aflakóngar og áttu stóra hluti í skipum sínum. Útgerðarfélög voru rekin um einstök skip, svo að skipstjórar voru hornsteinar fyrirtækjanna.

Nú er eignarhald í sjávarútvegi að safnast á fárra hendur. Fyrst mynduðust fyrirtæki í hverju plássi um fleiri en eitt skip og fiskvinnslu að auki. Síðan færðist eignarhaldið yfir til hluthafa í stærri kaupstöðum og á endanum lendir eignarhaldið á höfuðborgarsvæðinu.

Kvótakerfið hefur hraðað þessu ferli. Heimild til verzlunar með kvóta hefur leitt til, að upprunalegir eigendur eða erfingjar þeirra hafa tekið út kvótaauðinn eins og hvern annan happdrættisvinning, sóað honum eða fjárfest hann syðra eða jafnvel í Karíbahafinu.

Kvótinn hefur smám saman safnast á hendur fárra, einkum í Reykjavík, á Akureyri og í Eyjum og mun nánast allur enda á Reykjavíkursvæðinu. Fjarlægð valdsins frá fólkinu í sjávarplássunum hefur aukizt og skipstjórar eru ekki eins miklir menn og þeir voru áður.

Gengissig skipstjóra er mikilvægur þáttur í gengissigi íslenzkra sjávarplássa. Unga fólkið við sjávarsíðuna sér ekki framtíðina í sama ljósi og áður. Í hugum þess breytist plássið í átthagafjötur, sem stendur í vegi þess, að það geti farið suður eða utan og sigrað heiminn þar.

Við getum valið um að líta á þetta sem vandamál eða sem náttúrulögmál, stutt af kvótakerfinu. Fyrra viðhorfið er til lítils gagns, því að vandamálið hverfur ekki, þótt peningum sé kastað í það. Byggðastefna má sín lítils gegn hugsunum fólks sem horfir til Reykjavíkur.

Annað dæmi sýnir gagnsleysi þess að kasta peningum í meint vandamál. Sauðfjárrækt hefur áratugum saman verið á undanhaldi vegna markaðsbrests í útlöndum og minnkandi neyzlu innanlands. Mörgum milljörðum hefur á hverju ári verið kastað í þetta náttúrulögmál.

Margir hafa notað tækifæri kvótakerfisins og selt rétt sinn til sauðfjárræktar. Eigi að síður er sauðfé enn allt of margt og sauðfjárbændur allt of margir. Enn verra er, að flestir þeirra búa við bágan og síversnandi fjárhag. Sjálfsvirðing sauðfjárbóndans hefur beðið hnekki.

Þannig hrynja hefðbundnar atvinnugreinar og þannig hrynur hefðbundin búseta. Gengissig atvinnuhátta og búsetu gerist í hugum fólks. Það gerist, þegar hugsun og ráðagerðir hætta að snúast um þessi atriði og beinast að nýjum atvinnugreinum í öðrum landshlutum.

Íslenzk stjórnmál snúast að töluverðu leyti um þetta náttúrulögmál, sem stjórnmálamenn kjósa almennt að tala um sem vandamál. Þeir blaðra án afláts um skort á jafnvægi í gengissignum byggðum landsins og heimta, að meira fé verði fleygt í vandamálið úr ríkissjóði.

Öll er þessi viðleitni dæmd til að mistakast. Hún einbeitir sér að afleiðingum og lítur fram hjá orsökum, sem er að leita í hugarfari fólks. Byggðastefnan birtist fólki sem byggðagildra, er reynir að koma í veg fyrir, að það brjótist úr átthagafjötrum byggðastefnunnar.

Langt er síðan ungt fólk hætti að vilja gerast sauðfjárbændur. En gengissig byggðanna er langt gengið, þegar það vill ekki einu sinni gerast skipstjórnarmenn.

Jónas Kristjánsson

DV