Hin nýja Róm er risin

Greinar

Páfakirkjan og Lúterskirkjan hafa náð saman eftir tæpra fimm alda aðskilnað. Í Augsburg á sunnudaginn undirrituðu fulltrúar beggja kirkjudeilda samkomulag um samræmda túlkun kennisetninga, sem voru tilefni mótmæla, er Lúter festi á kirkjudyr árið 1517.

Til að innsigla samkomulag um brottfall ágreinings um kennisetningar stigu kaþólskir og lúterskir klerkar prósessíu frá hinni kaþólsku kirkju heilags Úlriks til hinnar lútersku kirkju heilagrar Önnu og sungu messur á báðum stöðum. Róm hefur sameinazt að nýju.

Gott samband kaþólsku og lútersku þykir ef til vill ekki merkileg frétt á Íslandi, þar sem áhugi er lítill á kennisetningum og þar sem friðsæld hefur ríkt um langt skeið í trúarlegum efnum. Og hugsanlegt er, að hinar sögulegu sættir stafi sumpart af trúardofa fólks.

Þótt trúin sé á hliðarspori í heimi evrópsks nútímafólks, er atburðurinn táknrænn fyrir sameiningu Evrópu um þessar mundir. Hið heilaga rómverska keisaradæmi miðalda er risið að nýju með miðstöð í Bruxelles, borginni á landamærum páfadóms og mótmælenda.

Fyrir örfáum áratugum var Vestur-Evrópa tvískipt í framfarasinnaða og auðuga Norður-Evrópu og íhaldssama og fátæka Suður-Evrópu. Meira eða minna af völdum Evrópusambandsins hefur þessi munur lagzt af og öll Vestur-Evrópa er orðin framsækin og forrík.

Spánverjar, sem áður voru svartastir allra kaþólikka, hafa lagt niður gamla rannsóknaréttinn og sett upp nýjan, sem skelfir gamla og blóði drifna herforingja í Suður-Ameríku. Spánn hefur tekið siðferðilega og menningarlega forustu fyrir sinni gömlu nýlenduálfu.

Ef til vill koma þeir tímar, að Grikkir geri það sama fyrir arfinn, sem forðum daga fluttist frá Aþenu til Miklagarðs og síðan til Moskvu. Grikkir eru eini fulltrúi orþódoxra þjóða í Evrópusambandinu og eina þjóðin af þeim merg, sem talizt getur til vestræns nútíma.

Síðan páfinn og arfar Lúters lögðu á sunnudaginn niður landamæri norðurs og suðurs í Evrópu, eru bara ein umtalsverð landamæri í Evrópu. Þau liggja milli austurs og vesturs. Þau skilja Rússland, Úkraínu, Hvíta-Rússland og Serbíu frá hinu vestræna meginlandi.

Vestan við mörkin ríkja lýðræði, valddreifing, lög og réttur, hvers kyns frelsi og ríkidæmi. Í heimi orþódoxra austan markanna mun enn um sinn ríkja þjófræði, valdþjöppun, lögleysa og réttleysi, hvers kyns ófrelsi og síðast en ekki sízt botnlaus og endalaus fátækt.

Evrópusambandið er að tosa hina kaþólsku Austur-Evrópu, það er að segja Pólland, Tékkland, Ungverjaland, Slóveníu, Eystrasaltsríkin, Slóvakíu, og ef til vill nokkur fleiri lönd inn í birtu Vesturlanda. Orþódoxu löndin sitja hins vegar eftir að sinni og bíða sinnar upprisu.

Meðan heimssögulegir atburðir eru að gerast á meginlandi Evrópu, hímum við norður í eylandi okkar og teljum okkur trú um, að framtíð okkar sé utan valdasviðs Evrópusambandsins. Við höfum þegar setið af okkur ýmis tækifæri til að komast þar til áhrifa.

Það er eins og Íslendingar og stjórnmálamennirnir, sem endurspegla þjóðarsálina, búi í öðru sólkerfi en þjóðirnar, sem hafa af biturri reynslu ákveðið að falla frá fornri landamærahyggju og standa heldur saman um vegferð sína inn í velmegun og lífsgæði næstu aldar.

Róm hefur verið endurreist með höfuðstöðvum í Bruxelles. Prósessía sunnudagsins í Augsburg táknaði, hvernig Vestur-Evrópa hyggst sigla inn í nýtt árþúsund.

Jónas Kristjánsson

DV