Engu var treystandi

Greinar

Röngum upplýsingum hefur löngum verið beitt til að efla stuðnings almennings við styrjaldir ráðamanna. Fréttafalsanir Atlantshafsbandalagsins í Kosovo-stríðinu hafa leitt til fullkomins vantrausts af hálfu fjölmiðla að mati Patrick Bishop hjá Daily Telegraph í London.

Á sínum tíma var fólki talin trú um, að þýzkir hermenn köstuðu belgískum smábörnum á byssustingjum. Í annan tíma var fólki talin trú um, að írakskir hermenn tækju kúveitska nýbura úr öndunarkössum og fleygðu þeim á gólfið. Hvort tveggja var algerlega rangt.

Fyrirfram býst fólk við, að varast beri fullyrðingar, sem koma frá heimsfrægum lygurum á borð við Milosevic Serbíuleiðtoga. Við erum hins vegar trúgjarnari á það, sem kemur frá eigin varnarbandalagi, jafnvel þótt Persaflóastríðið hefði átt að vara okkur við.

Talsmenn sögðu Nató hafa eyðilagt 122 skriðdreka Serba í Kosovostríðinu. Eftir stríðið kom í ljós, að þeir voru bara þrír. Hins vegar hafði Nató eyðilagt 20 sjúkrahús, 30 heilsugæzlustöðvar, 200 skóla, drepið 2.000 óbreytta borgara og sært 6.000 óbreytta til viðbótar.

Margir þekktir Kosovar, sem talsmenn Nató sögðu hafa verið myrta, svo sem Fehmi Agani, birtust síðan við góða heilsu. Arkan hinn hræðilegi var sagður stunda þjóðahreinsun í Kosovo meðan hann var í blaðaviðtölum í Belgrað. Hús Rugova var sagt hafa verið brennt.

Nató neitaði fyrst að hafa skotið á hóp flóttamanna og sagði Serba hafa gert það, viðurkenndi næst að hafa hitt einu skoti, en Serbar hefðu valdið mestu tjóni, viðurkenndi þar næst að hafa kastað níu sprengjum á tvo hópa flóttamanna, sem hafi virzt vera hermenn.

Síðan hefur verið upplýst, að margar sprengjuflugvélar Atlantshafsbandalagsins hnituðu þrjá eða fjóra hringi yfir þessum flóttamönnum og gerðu hverja árásina á fætur annarri, án þess að flugmenn sæju nein merki þess, að um óvinahermenn gæti verið að ræða.

Tveir þjóðarleiðtogar á Vesturlöndum lögðu sérstaka áherzlu á, að Atlantshafsbandalagið framleiddi lygasögur í fjölmiðla. Það voru Bill Clinton Bandaríkjaforseti og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, svo og aðstoðarmenn þeirra, Jonathan Prince og Alastair Campbell.

Rangfærslurnar voru einkum miðaðar við sjónvarpsstöðvar, sem margar hverjar líta á fréttir sem hvern annan varning og þurftu eitt gott “hljóðbit” á dag og eina góða myndræmu af loftárás, sem stundum var framleidd í tölvu eins og tíðkaðist í Persaflóastríðinu.

Daglega vall flaumur rangfærslna í stóru og smáu á fréttamannafundum í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins. Efahyggjumenn í hópi fjölmiðlunga reyndu að standast þetta gerningaveður og beztu fjölmiðlarnir fóru varlega í notkun upplýsinga bandalagsins.

Jafnvel mestu efahyggjumenn í hópi fjölmiðlunga hafa orðið að játa, að síðari vitneskja um fyrirferð fréttafalsana Atlantshafsbandalagsins hafi komið þeim á óvart. Þess vegna verður ekki eins auðvelt næst fyrir bandalagið að telja fólki trú um nánast hvað sem er.

Á vegum Alþjóðasambands ritstjóra hefur nú verið gefin út massíf þungavigtarbók um samskipti fjölmiðla við áróðursmeistara Kosovo-stríðsins og um naflaskoðun fjölmiðlunga víðs vegar um heim í framhaldi þess, að þeir játa, að hafa látið bandalagið hafa sig að fífli.

Það er uggvænlegt og ófært með öllu, að herstjórar geti áfram framleitt stuðning heilla þjóða við styrjaldir með því að framleiða óheftar lygasögur á færibandi.

Jónas Kristjánsson

DV