Frumskylda ríkisvaldsins

Greinar

Það stingur í augu í fréttum af hótunum handrukkara og fíkniefnasala við foreldra og aðra ættingja fíkniefnaneytenda, hversu lítinn stuðning fólk hefur af lögreglunni. Hún kemur seint og illa á vettvang og fylgir ekki slóðinni frá handrukkurum til fíkniefnakónga.

Tökum dæmi af drengnum, sem varð að sæta pyndingum, meðan bróðir hans varð að bíða eftir lögreglunni í 20­30 mínútur í bíl fyrir utan. Nokkrum dögum síðar neitaði lögreglan að hjálpa yngri bræðrum drengsins milli húsa undan hótunum ofbeldismanna.

Tökum dæmi af lögreglunni, sem fékk játningu tveggja handrukkara og sleppti þeim síðan, í stað þess að óska eftir gæzluvarðhaldi til að geta rakið slóðina til þeirra, sem gera þá út. Það er eins og lögreglan á Íslandi átti sig takmarkað á samhengi ofbeldis og fíkniefnasölu.

Marklaust er að segja fólki, að það eigi að kæra handrukkara, þegar það verður þeirra vart. Hver er vörn þessa fólks, sem fær hótanir um, að eignir þeirra verði skemmdar og það jafnvel limlest sjálft? Hvaða ábyrgð tekur lögregla á málum, sem kærð eru til hennar?

Lítt stoðar að vísa til takmarkaðra fjárráða lögreglustöðva. Í þessum efnum er hægt að forgangsraða eins og öðrum. Til dæmis er unnt að fækka fyrirsátum lögreglu til að koma upp um ýmsar ömmur í þjóðfélaginu, sem keyra 15 kílómetrum á klukkustund of hratt.

Hér á landi verður ekki þrengt að möguleikum fíkniefnakónga og handrukkara þeirra, nema lögreglan standi af fullum þunga með þeim, sem kæra. Að öðrum kosti verða það einungis nokkrar hetjur, sem kæra. Hinir borga í kyrrþey og leyfa þjóðfélaginu að grotna.

Ekki tekur betra við hjá dómstólunum. Sá, sem skipulagði ofangreindar pyndingar, slapp við dóm, því að hann var skilgreindur sem vitni, en ekki sem gerandi. Og svo langt gengur ruglið í dómstólunum, að menn fá því vægari dóma, sem brot þeirra verða fleiri.

Í síðustu viku hlutu tveir síbrotamenn lágmarksdóm fyrir rán, þótt þeir hafi verið inni og úti í heilan áratug. Í stað þess að herða dóma við ítrekuð brot, eru dómarnir við neðri mörk lagaákvæða. Þess eru líka dæmi, að dómum sé slengt saman í eins konar afsláttarpakka.

Lögreglu og dómstóla vantar ekki lög eða refsiákvæði. Hvorugt er nýtt til fulls. Alþingi verður ekki sakað um að hafa vanrækt að búa til ramma, sem framkvæmda- og dómsvaldið á þessum sviðum geti farið eftir. Ábyrgðin er hjá þeim, sem forðast að nýta þessa ramma.

Lögreglan veit af tugum handrukkara í fullu starfi. Henni ber skylda til að handsama þá og heimta úrskurði um langvinnt og framlengt gæzluvarðhald, sem verði notað til að fá upplýsingar um fíkniefnasalana, sem hafa þá í vinnu. Lögreglan hefur ekkert betra að gera.

Dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra ber skylda til að taka yfirmenn lögreglu á teppið og lesa þeim pistilinn. Sömuleiðis er ekki vanþörf á að senda dómurum landsins afrit af lögum, þar sem strikað er undir ákvæði um refsiramma í fíkniefnasölu og handrukkun.

Ríkisvaldið hefur tekið að sér ótal og sum hver illskiljanleg verkefni, en virðist eiga erfitt með að sinna frumskyldu sinni, sem felst í að gæta öryggis borgaranna. Fráleitt er, að ríkisvald, sem veltir 200.000.000.000 krónum á ári, geti ekki sinnt frumskyldu sinni.

Óbótamenn eiga erfitt með að fela sig innan um fámenna þjóð, ef hún ákveður, að þetta gangi ekki lengur. Kominn er tími til að taka þá ákvörðun.

Jónas Kristjánsson

DV