Sumir heilsa nítjándu öldinni

Greinar

Því nær sem dregur að áramótum, þeim mun áleitnari verður spurningin um aldamót og árþúsundamót. Hvort þetta séu þau mót eða hvort menn séu að taka forskot á sæluna einu ári of snemma. Raunveruleg aldamót og árþúsundamót komi ekki fyrr en eftir rúmt ár.

Almenningur lætur þessar hugleiðingar sig litlu varða. Í upphafi næsta árs hefst ártalið á tölustafnum tveimur í stað tölustafsins eins. Þessi stórfellda útlitsbreyting ártala nægir flestum til að líta svo á, að nýtt tímabil sé hafið. Talan 2 hefur tekið við af tölunni 1.

Þegar tímatal okkar var tekið upp, var núllið ekki komið til sögunnar á Vesturlöndum. Menn reiknuðu frá I upp í X. Núllið kom til Evrópu með aröbum og varð síðar hornsteinn stærðfræðinnar, en við sitjum enn uppi með tímatal, sem er arfur frá frumstæðara stigi.

Þeir, sem lifðu við upphaf tímatals okkar, höfðu ekki hugmynd um, að svo væri. Þeir reiknuðu árin út frá mikilvægum atburðum, svo sem valdaskeiðum konsúla. Það var ekki fyrr en löngu seinna, að farið var að reikna tímann aftur á bak og telja mínusár aftur fyrir Krist.

Þá var talan 1 fyrir Krist næsta ár á undan 1 eftir Krist. Ekkert ár var til, sem kalla mætti 0-ár. Þar með varð árið ekki fullnustað fyrr en að því loknu. Þetta er helzta röksemdin fyrir því, að fólk sé ári of snemma að undirbúa hátíðahöld í tilefni næstu árþúsundamóta.

Fyrst og fremst er þetta leikur að tölum, því að óvissa í tímamælingum yfir þúsundir ára veldur því, að aldrei er hægt að segja með fullri nákvæmni, hvað langt sé frá atburðum, sem gerðust t.d. 334 árum fyrir tímatal okkar. Sjálft fæðingarár Krists er raunar með öllu óvíst.

Forfeður okkar héldu upp á síðustu aldamót á mótum áranna 1900 og 1901. Samt þurfum við ekki að hafa samvizkubit út af því að ætla að halda upp á aldamót og árþúsundamót á mótum áranna 1999 og 2000. Við getum til öryggis endurtekið hátíðahöldin ári síðar.

Miklu merkilegri er sú staðreynd, að einungis hluti þjóðarinnar fer inn í 21. öldina um næstu áramót, að vísu meirihluti hennar. Eftir sitja margir á 20. öldinni og sumir verða í þann mund að fara inn í 19. öldina. Eru þar fremst þeir, sem eru enn að iðnvæða Ísland.

Rétt eins og iðnbyltingin kom til sögunnar í lok 18. aldar og einkenndi 19. öldina, þá hefur þekkingarbyltingin verið að koma til sögunnar í lok 20. aldar og mun einkenna þá 21. Á hverju ári margfaldast atvinna Íslendinga af ótrúlegasta þekkingariðnaði af ýmsu tagi.

Eftir sitja ýmsir byggðastefnumenn, verkalýðsforingjar, helztu afturhaldsmenn stjórnmálanna og ýmsir síðbúnir iðnbyltingarmenn. Þeir vilja reisa álver og orkuver á Héraði, gulltrygg taprekstrarfyrirtæki, niðurgreidd af rafmagnsnotendum og lífeyrissjóðum.

Söngkonan Björk og Guðjón í Oz vita, að Norsk Hydro selur álverinu hráefnið, kaupir afurðir þess, flytur hagnaðinn til sín og ræður alveg, hvað íslenzkir lífeyrissjóðir fá fyrir eignaraðildina. Nútímafólk skilur, að á þekkingaröld þrífast álver helzt í þriðja heiminum.

Á sama tíma og þekkingarfólkið er að fara inn í 21. öldina, sitja Halldór, Finnur og Siv á ofanverðri 18. öld og eru að búa sig undir iðnbyltinguna og 19. öldina. Það hefur því hver sín aldamót til að halda upp á um næstu áramót, hver eftir sínu stigi í þróunarbrautinni.

Tíminn, hann er fugl, sem flýgur hratt. Hann flýgur kannski úr augsýn þér í nótt. Hann er fyrir löngu floginn frá þeim, sem eru enn að troða sér inn í 19. öldina.

Jónas Kristjánsson

DV