Norsk Hydro fíflar Íslendinga

Greinar

Hagur af álverum byggist á að hafa tök á öllu ferlinu frá vinnslu málmgrýtisins til framleiðslu nytjahluta úr áli. Sá, sem á bara álver til að vinna málm úr grjóti með raforku, er eins og báta- og kvótalaus fiskverkandi, sem þarf að bjóða í fisk á hverfulum markaði.

Alusuisse hafði ítök í markaðinum báðum megin við álverið í Straumsvík og gat hagrætt verðlagi í hafi eins og frægt varð á sínum tíma. Norsk Hydro hefur sömu stöðu gagnvart álveri á Reyðarfirði, selur því málmgrýti og kaupir álið, sem framleitt var úr því.

Norsk Hydro mun stjórna afkomu álversins á Reyðarfirði. Þar sem hagsmunir fyrirtækisins eru eindregnari af rekstri, sem er allur í þess eigu, heldur en af rekstri, sem er að minnihluta í eigu þess, mun það haga bókhaldinu í þágu þeirra hagsmuna, sem meiri eru.

Ætlunin er að ginna íslenzka lífeyrissjóði til að verða hornsteinn fjármögnunar álversins á Reyðarfirði. Það stafar af, að í stjórnum lífeyrissjóða er mikið af fólki, sem þekkir takmarkað til rekstrar fyrirtækja og hefur tæpast meira vit á peningum en hver annar.

Lífeyrissjóðirnir eru nú hver um annan þveran vistaðir hjá verðbréfasjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, sem freistast til að nota lífeyrissjóðina til að hjálpa sér við skemmtilegar æfingar í kaupum og sölu pappíra. Þar á meðal er fyrirhugað álver á Reyðarfirði.

Þar sem lífeyrissjóðir eru tiltöluleg nýkomnir í tízkubraskið, hefur ekki enn orðið neitt skammhlaup af þess völdum. Þess verður þó tæpast langt að bíða, að einhver lífeyrissjóðurinn gerist ófær um að sinna skuldbindingum sínum vegna ógætilegrar fjárvörzlu.

Nú halda menn, að þeir eigi í lífeyri sínum trygga eign til elliáranna. Svo er því miður ekki. Lífeyrissjóðir eru farnir að taka þátt í braski, sem stefnir öryggi sjóðfélaga í hættu. Eitt af því er þátttaka í álveri, sem ekki hefur tök á kaupum á aðföngum og sölu á afurðum sínum.

Þeir, sem hafa áhyggjur af lífeyri sínum og telja, að lífeyrissjóðir eigi að halda sig við áhættuminni fjárfestingar, ættu sem fyrst að hafa samband við stjórnarmenn lífeyrissjóða sinna og lýsa efasemdum um, að það sé í þágu sjóðfélaga að fara í spilavítið hjá Norsk Hydro.

Áliðnaður er gömul og gróin atvinnugrein, sem siglir í átt til lítillar arðsemi og jafnvel taprekstrar, rétt eins og skipasmíðar. Þróuð ríki eru að reyna að losna við áliðnað sinn og koma honum til þriðja heimsins, þar sem ráðamenn eru margir enn með álglýju í augum.

Svisslendingum hefur tekizt að losna við öll álver úr landinu, meðal annars með því að byggja eitt á Íslandi. Þjóðverjar losnuðu við eitt álver til Íslands. Og nú er Norsk Hydro að komast í vanda heima fyrir og vill láta íslenzka lífeyrissjóði borga fyrir sig álver í staðinn.

Enginn mun græða á álverinu á Reyðarfirði nema Norsk Hydro. Íslenzkir lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar munu tapa. Landsvirkjun mun tapa, því að orkuverð þyrfti að hækka um 70% til að kosta virkjun, sem fær ókeypis að eyðileggja Eyjabakka og Miklugljúfur.

Þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að láta slag standa, eru ekki eftir margar aðrar leiðir í stöðunni en að reyna að hafa vit fyrir íslenzkum lífeyrissjóðum og draga kjark úr Norsk Hydro og norska iðnaðarráðuneytinu, sem fer með meirihlutaeign í fyrirtækinu.

Ráðamenn Norsk Hydro eru að vísu enn svo forstokkaðir, að þeir vilja ekki einu sinni hlusta á Steingrím Hermannsson. Þeir eru óvinir þjóðarinnar númer eitt.

Jónas Kristjánsson

DV