Hlutverk og völd

Greinar

Umhverfisráðherra segist hafa orðið að falla að stefnu ríkisstjórnarinnar til að ná áhrifum í stjórnmálum. Á mæltu máli þýðir þetta, að hún hafi orðið að skipta um skoðun í umhverfismálum til að geta orðið umhverfisráðherra á átakatímum Eyjabakkavirkjunar.

Umhverfisráðherra ruglar saman hlutverkum og áhrifum. Fólk kemst til metorða á ýmsum forsendum, flestir til að leika ákveðin hlutverk og fæstir til að hafa völd. Meirihluti stjórnmálamanna hefur engin völd, þótt þeir hafi komizt til metorða og mannaforráða.

Áhrif og völd eru atriði, sem fylgja ekki metorðum á sjálfvirkan hátt. Áhrif og völd eiga sér ýmsar rætur. Góður árangur í starfi og virðingin, sem af því hlýzt, getur leitt til valda, sömuleiðis vilji til að beita afli, andlega eða líkamlega. Jafnvel handrukkarar hafa völd.

Í Framsóknarflokknum hafa Ólafur Örn Haraldsson og Sigmar B. Hauksson meiri völd en umhverfisráðherra. Þeir hafa völd, af því að þeir hafa ekki látið mikinn þrýsting beygja sig og eru því taldir meiri persónuleikar en það fólk, sem leikur hlutverk eftir aðstæðum.

Formaður Framsóknarflokksins hefur líka völd, en ákaflega misjöfn. Hann hefur völd til að halda heilli ríkisstjórn og meirihluta Alþingis í gíslingu út af Eyjabakkavirkjun, en hann getur hvað eftir annað ekki höggvið á hnúta valdabaráttu innan flokksins.

Þegar formaður getur ekki sagt flokksmönnum sínum, hvern hann vilji í stjórn flokksins eða embætti félagsmálaráðherra, hlýtur hann að rýra áhrif sín. Halldór Ásgrímsson er dæmi um stjórnmálamann, sem eyðir öllu sínu púðri í eitt kjördæmismál og fellur með því.

Sterkustu stjórnmálamenn landsins geta gefið eftir og gera það, ef það hentar þeim. Þannig hefur forsætisráðherra stundum áminnt samráðherra sína og sagt, sem frægt er orðið, að svona geri maður ekki. Og þannig hefur borgarstjóri hætt við byggingar í Laugardal.

Þetta eru voldugir stjórnmálamenn, af því að þeir skaffa og af því að fólk virðir þá og óttast jafnvel. Óttinn við Davíð Oddsson er svo landlægur í Sjálfstæðisflokknum, að menn leita ráða hans um skipan manna og mála á póstum, sem varða valdsvið hans ekki neitt.

Forsætisráðherra getur kúgað menn til hlýðni, ef hann finnur á þeim veikan blett. Hann getur látið breiða út þær upplýsingar, að óþægðarmaður í flokknum sé ævintýralega skuldugur og þannig knúið hann til að biðjast vægðar og draga verulega úr óþægðinni.

Völd hans eru svo mikil, að einn góðan veðurdag getur hann sagt, að bezt sé að slá Eyjabakkavirkjun á frest. Þúsundir flokksmanna, sem nú þora ekki að æmta eða skræmta, munu andvarpa feginsamlega og öðlast meiri tröllatrú á formanni sínum en nokkru sinni fyrr.

Valdamenn breyta gangi veraldarsögu, landssögu, héraðssögu eða sögu stofnana og fyrirtækja með einu lausnarorði, af því að nógu margir vilja sitja og standa eins og þeir vilja. Hinir eru ekki valdamenn, sem fá metorð út á að sitja og standa eins og valdamenn vilja.

Þannig er það misskilningur umhverfisráðherra, að hún hafi náð í eitthvert horn af völdum í landinu. Þvert á móti hefur hún stimplað inn vitneskju um, að af hreinni metorðagirnd leiki hún þau hlutverk, sem þurfi að leika hverju sinni. Hún er valdalaus með öllu.

Völd og áhrif eru ekki öllum gefin. Þau eru gefin þeim, sem menn óttast eða virða, nema hvort tveggja sé. Þau fást allra sízt af því að leika rulluna sína.

Jónas Kristjánsson

DV