Afturvirkni aðgerðaleysis

Greinar

Sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins væri Íslendingur, sennilega Halldór Ásgrímsson, ef Ísland væri aðili að sambandinu. Þegar Ísland gerist aðili, fær það ekki ráðherra, af því að reglur um ráðherra frá smáríkjum breytast með stækkun bandalagsins til austurs.

Þegar íslenzk stjórnvöld neyðast til að kanna, hver geti orðið niðurstaða samkomulags um aðild að Evrópusambandinu, munu andstæðingar aðildar nota skortinn á aðgangi að ráðherraembætti sem eina helztu röksemd sína gegn aðild Íslands að sambandinu.

Þetta er dæmi um, að gerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda geta breytt aðstæðum á þann veg, að sú leið, sem stjórnvöld hafa valið, virðist í tímans rás ekki vera eins óhagstæð og hún var, þegar ákvörðun um hana var tekin. Aðgerðaleysi framkallar sína eigin réttlætingu.

Forsætisráðherra hefur nýlega ítrekað, að ekki sé vit í að semja um aðild að Evrópusambandinu. Rökin eru hin sömu og áður, að samkomulag um fiskveiðar yrði okkur óhagstætt. Svo viss er hann í hinni sök, að ekki má einu sinni kanna, hvaða samkomulag næst í raun.

Um svipað leyti lýsti forsætisráðherra því yfir á eindreginn og raunar ofsafenginn hátt, að landauðn yrði, ef Hæstiréttur staðfestir túlkun nýgengins héraðsdóms um jafnari rétt manna til aðgangs að fiskveiðikvótum en gert er ráð fyrir í núverandi kvótareglum.

Sameiginlegt með þessum tveimur sjónarmiðum forsætisráðherra er, að hann lítur óvenjulega þröngt á málin í samanburði við sjónarmið margra annarra. Hin þröngu sjónarmið hans styðja hvort annað, því að þau byrgja honum sýn á sameiginlega lausn málanna.

Með uppboðum á leigukvótum, sem forsætisráðherra vill ekki heyra nefnd, má verða við þeim ítrekuðu ábendingum dómstóla, að fiskveiðistjórn verði að haga á betra grundvelli jafnræðis borgaranna. Þá eiga allir jafnan rétt, án þess að fórnað sé arðsemiskröfum.

Uppboð á leigukvótum leysa líka ágreining Evrópusambandsins og Íslands um veiðiheimildir í fiskveiðilögsögunni. Þegar þjóðfélagið tekur sitt á þurru í leigugjaldi og setur skilyrði um löndun, má verða við óskum um erlenda hlutdeild í aðgangi að kvótauppboðum.

Uppboð á leigukvótum færa eignarhald á fiskinum í sjónum ótvírætt í hendur íslenzka samfélagsins, einnig á þeim fiski, sem erlend veiðiskip fá að veiða á grundvelli tilboða sinna í kvóta og á grundvelli tilheyrandi greiðslu þeirra á leigugjaldi til íslenzka ríkisins.

Þannig getur víð sýn á fleiri en eitt mál í senn leitt til hagstæðrar niðurstöðu í þeim öllum, en þröng sýn á sömu mál leiðir til, að menn sjá ekki möguleika á lausn. Hin þrönga sýn framkallar svo aðgerðaleysi, sem smám saman lokar fyrri möguleikum á lausn mála.

Þessa sömu stjórnunarhætti aðgerðaleysis sjáum við í ráðagerðum um Austfjarðavirkjun. Með því að framkvæma ekki lögformlegt umhverfismat á tilsettum tíma, framleiðir ríkisstjórnin tímahrak, sem hún notar til að hindra slíkt mat, sem hún telur verða óhagstætt.

Þegar henni hefur tekizt að spilla stærsta ósnortna víðerni álfunnar og grafa undan tekjum af ferðaþjónustu, getur hún notað þá útkomu til að rökstyðja ákvörðun sína afturvirkt með því að segja ferðatekjur af hálendinu ekki vera eins miklar og vondir menn hafi fullyrt.

Aðferðir forsætisráðherra henta vel í þjóðfélagi, þar sem langtímaminni fólks spannar tíu daga. Við slíkar aðstæður virðist hann oft hafa haft á réttu að standa.

Jónas Kristjánsson

DV