Lífeyrissjóðir fjárfesti erlendis

Greinar

Fjárfesting íslenzkra lífeyrissjóða í innlendum fyrirtækjum hefur hættur í för með sér, sem eru svipaðs eðlis og fjárfesting staðbundinna lífeyrissjóða í fyrirtækjum staðarins. Í báðum tilvikum felst vandamálið í, að sjóður og fyrirtæki eru sömu megin á sveiflunni.

Hér í blaðinu og víðar var gagnrýnt í fyrra, að Lífeyrissjóður Vestfjarða og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja höfðu fjárfest í staðbundnum fyrirtækjum, sem síðan féllu í verði eða fóru á hausinn. Fólk missti í senn atvinnuna og varð fyrir skerðingu á lífeyri sínum.

Freistandi er að líta til lífeyrissjóða sem tækis til að lyfta atvinnulífi, rétt eins og fyrrum voru þeir taldir tæki fólks til að koma þaki yfir höfuðið. Hvorugt er hlutverk lífeyrissjóða. Þeir eiga ekki að gera annað en að varðveita lífeyri félagsmanna og ávaxta hann sem bezt.

Í sumum sjávarplássum hafa lífeyrissjóðir sogazt inn í vítahring deyjandi fyrirtækja, þar sem starfsfólk, sveitarfélög og lífeyrissjóðir hafa hlaupið undir bagga með þeim afleiðingum, að fyrirtækið andaðist ekki eitt, heldur hrundi allt samfélagið á staðnum með því.

Mörgum mun finnast undarlegt, að nú sé fitjað upp á þessu aftur og reynt að túlka það á landsvísu, einmitt þegar flestir virðast telja, að kaup á hlutabréfum feli undantekningarlaust í sér gróða. En á tímum feitu áranna sjö þurfa menn að muna eftir mögru árunum sjö.

Álag á lífeyrissjóði er minna í góðæri en í hallæri. Til dæmis nýta menn síður til fulls möguleika sína til að fá metna örorku, sem þeir gera hins vegar, þegar harðnar á dalnum og vinna verður stopulli. Lífeyrissjóðir þurfa að vera sterkastir, þegar atvinnulífið er veikast.

Ef skynsamlegt er, að staðbundnir lífeyrissjóðir dreifi áhættunni með því að fjárfesta á landsvísu, þá hlýtur einnig að vera skynsamlegt fyrir lífeyrissjóði á landsvísu að dreifa áhættunni með því að fjárfesta á vestræna vísu, það er að segja í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ef atvinnulífið á Íslandi gengur almennt betur en atvinnulífið gengur almennt á Vesturlöndum, þá verður lífeyrisþrýstingur minni en hann væri, ef atvinnulífið gengur lakar á Íslandi en á Vesturlöndum. Erlend fjárfesting lífeyrissjóða vinnur á móti sveiflunni.

Svo lokaðir eru menn fyrir rökhyggju, að skammt er síðan einn seðlabankastjórinn ávítaði lífeyrissjóði, sem voru að byrja að fjárfesta í útlöndum. Miklu nær hefði verið að hrósa þeim, sem höfðu frumkvæði að því að treysta stöðu lífeyrissjóðanna til langframa.

Nú er einmitt tími og tækifæri til að vekja athygli á þessum staðreyndum. Peningar fljóta um þjóðfélagið og fjármálastofnanir berjast um skuldarana. Því er minni hætta en ella á því, að fjárskortur í þjóðfélaginu valdi því, að menn renni gráðugum augum til lífeyrissjóða.

Innlendar fjárfestingar reyndust vel á síðari hluta síðasta áratugar. Lífeyrissjóðirnir náðu flestir 6­8% raunávöxtun á ári, sem er sambærilegt við fjárfestingu í útlöndum. Ekki er hins vegar ráðlegt að búast við, að öll pappírsdæmi gangi upp á nýbyrjuðum áratug.

Í vaxandi mæli eru hlutabréf ekki keypt á verðgildi núverandi árangurs fyrirtækja, heldur á ímynduðum væntingum síðbúinna fjárfesta um hugsanlegt verðgildi fyrirtækjanna langt inni í framtíðinni. Hlutabréfamarkaðurinn er sumpart orðinn að eins konar póker.

Við slíkar aðstæður er rétt fyrir lífeyrissjóði að dreifa áhættu sinni út fyrir landsteinana og fjárfesta í þeirri vissu, að Vesturlöndum í heild muni vegna vel.

Jónas Kristjánsson

DV