Reykjavíkurborg hefur gert dularfullan samning við danska fyrirtækið Decaux um auglýsingar á biðskýlum og skiltum. Samningurinn minnkar þjónustu við borgarbúa, rýrir umferðaröryggi, eykur lagna- og orkukostnað borgarinnar og skerðir beinlínis fullveldi hennar.
Nýju og glæru biðskýlin koma í stað rauðu verðlaunaskýlanna, sem voru falleg og vindheld í senn. Þau nýju eru ekki vindheld vegna breiðra raufa við jaðar glersins og veita því minna skjól. Borgin hefur þannig minnkað þjónustu sína við notendur strætisvagnanna.
Í kaupbæti hefur borgin veitt Decaux leyfi til að setja upp 43 frístandandi auglýsingaskilti á eftirtakanlegum stöðum. Staðsetning allra skiltanna fer eftir undanþáguákvæði í svokallaðri skiltareglugerð borgarinnar og fá ekki aðrir en Decaux að njóta slíkrar undanþágu.
Til að bæta gráu ofan á svart, hefur borgin samið um að bera sjálf kostnað við lagnir að skiltunum og borga rafmagnið. Þannig hefur borgin kostnað af skiltunum, en engar tekjur á móti. Þetta samningsatriði mun fara í kennslubækur sem dæmi um fábjánaleg viðskipti.
Auglýsingarnar fjölga slysum, því að margir fipast í akstri við að reyna að lesa textann eða skoða myndirnar. Ekkert fær borgin í staðinn fyrir skert umferðaröryggi, svo að þetta atriði eitt var næg ástæða til að gera ekki skiltasamninginn við danska fyrirtækið Decaux.
Raunar hefur borgin neitað öðrum um að setja upp skilti á þessum stöðum, beinlínis vegna neikvæðra áhrifa slíkra skilta á umferðaröryggi. Svör borgarinnar við slíkum beiðnum fela beinlínis í sér yfirlýsingu um, að samningurinn við Decaux ógni öryggi fólks.
Ofan á allt þetta klúður virðist fullveldi borgarinnar hafa verið skert. Samkvæmt honum hefur Decaux frumkvæði að vali staða fyrir skiltin, en nefndir á vegum borgarinnar geta gert rökstuddar athugasemdir við staðarvalið. Borgin þarf að þrúkka við fyrirtækið.
Decaux kaus að setja skiltin niður á þeim stöðum, sem mest bar á, þar á meðal fyrir framan stjórnarráðið og skrifstofu forseta lýðveldisins. Borginni tókst að fá þessi tvö skilti færð yfir götuna, en önnur skilti eru á þeim stöðum, sem danska fyrirtækið hefur ákveðið.
Ráðamenn fyrirtækja og stofnana, sem lenda í skugga skiltanna, hafa kvartað, enda var ekkert samráð haft við þá. Þeir segja, að skiltin skyggi á útstillingarglugga og valdi þrengslum á gangstéttum framan við verzlanir sínar. Borgin svarar slíkum kvörtunum ekki.
Ráðmenn borgarinnar hafa sýnt furðulegan skort á dómgreind í viðskiptum sínum við Decaux. Þeir hafa óhreinkað og vanhelgað eftirtektarverðustu staði borgarinnar með auglýsingum án þess að fá neitt fyrir borgina og borgarana í staðinn, nema aukinn kostnað.
Með samningnum við Decaux hafa ráðamenn borgarinnar orðið að athlægi, skapað sér óvild margra og gefið stjórnarandstöðunni kjörið tækifæri til að hossa sér á dómgreindarleysi meirihlutans. Samningurinn er svo fúll, að annarleg sjónarmið hljóta að hafa ráðið.
Málið er eins ófarsælt og slík mál geta orðið. Skiltin skera í augu um alla borg, upplýst á kostnað almennings allar götur til næstu kosninga, þegar meirihlutanum verður velt upp úr vitleysunni og hann spurður um baksamninga, sem hljóta að vera orsök ógæfunnar.
Skiltin eru lýsandi dæmi um, að ráðamenn Reykjavíkurlistans hafa tapað áttum og eru með sama framhaldi dæmdir til að tapa borginni í næstu kosningum.
Jónas Kristjánsson
DV