Sala almennings á heimild til nota á sjúkraskrám sínum í gagnagrunn deCode hefur ekkert með siðalögmál að gera. Þetta er bara tilraun til að láta markaðslögmál nútímans gilda í þágu fleiri en þeirra, sem hafa þægilega aðstöðu hafa til að græða mikla peninga.
Samkvæmt markaðslögmálunum hljóta að felast verðmæti í rétti fólks til að banna innsetningu skjala um sig. Hver einstaklingur fyrir sig hefur einokun á sínum þætti og getur reynt að gera sér mat úr því. Ef allir notuðu slíkan rétt, yrði enginn gagnagrunnur.
Ekki þýðir hins vegar fyrir hvern fyrir sig að skreppa inn í deCode og reyna að selja aðganginn að sínum gögnum. Það þýðir örugglega ekki heldur fyrir 5.000 manns að láta gera það fyrir sig sameiginlega. En tvær grímur kynnu að renna á menn, ef þeir væru 20.000.
Bandaríkjamenn eru sérfræðingar í að láta alla vinna fyrir einn og einn fyrir alla. Frægust hafa orðið prófmálin, sem rekin hafa verið fyrir hönd tugþúsunda manna gegn tóbaksframleiðendum og ýmsum öðrum, sem framleiða skaðlega vöru undir fölsku flaggi.
Fólk virðist ekki þurfa að taka neina áhættu með því að taka þátt í aðgerðinni. Engin fjárútlát eru boðuð. Menn þurfa bara að undirrita beiðni um úrsögn úr gagnagrunninum og umboð handa lögmönnum til að gera sem mest úr hugsanlegum verðmætum.
Eins og í Bandaríkjunum taka lögmenn prósentu af því sem kann að innheimtast, en vinna að öðrum kosti ókeypis. Þessi aðferð er vinsæl í Bandaríkjunum eins og dæmin sanna, en fróðlegt verður að sjá, hvort menn kveikja á þessu á sama hátt hér á landi.
Ef deCode stendur andspænis því að missa 20.000 manns úr grunninum af hugmyndafræðilegum ástæðum og aðra 20.000 af peningalegum ástæðum, munu ráðamenn fyrirtækisins fara að byrja að reikna kosti og galla þess að semja við umboðsmenn hópsins.
Til að byrja með mun deCode neita öllum samningum og saka umboðsmennina ýmist um öfund eða illgirni, eins og forstjórinn hefur raunar þegar gert. Áfram munu ráðamenn deCode stinga við fótum, þangað til kemur að einhverjum töfrafjölda, sem fær þá til umþóttunar.
Eftir er að sjá, að Íslendingar líkist Bandaríkjamönnum og taki sig saman tugþúsundum saman um að búa til stórt sameiginlegt verðgildi úr mörgum smáum. Fyrri reynsla af samstöðu manna í hagsmunamálum bendir ekki til, að ástæða sé til að vænta mikilla afreka.
Nytsamlegt er samt, að málið sé prófað. Við lifum í þjóðfélagi, þar sem hinir auðugu og voldugu nota markaðslögmálin hiklaust til að bæta stöðu sína á kostnað hinna. Það er engan veginn siðlaust, að smælingjarnir geri sameiginlega tilraun til slíks hins sama.
Þótt illa hafi gengið að fá menn til samstöðu til aðgerða gegn bensínhækkunum, verður að hafa í huga, að fjárhagslegur ávinningur hvers og eins var ekki áþreifanlegur. Dæmi er hins vegar um, að menn hafi tekið við sér, ef væntanlegur gróði þeirra sjálfra var augljós.
Mikil þátttaka í kennitölubraski vegna útboða á hlutafé í bönkum bendir til, að margir Íslendingar séu tilbúnir að hafa örlítið fyrir því að ná sér í aukapening fyrir ekki neitt. Munurinn var þó sá, að þá gat sérhver framkvæmt verkið án samstarfs við aðra í stórum hópi.
Ef nógu öflugur hópur myndast um þetta mál, hefur fengizt staðfesting á, að markaðslögmál gildi að fullu hér á landi. Gróðafíknin sé komin í grasrótina sjálfa.
Jónas Kristjánsson
DV