Hagur sauðfjárbænda væri nú annar og betri, ef fyrir nokkrum áratugum hefði verið tekið mark á þeim, sem sögðu, að heppilegast væri að nota ríkisstyrkina til að borga mönnum fyrir að hætta fjárbúskap, svo að hinir, sem eftir sætu, gætu haft þolanlega afkomu.
Fyrir nokkrum áratugum var séð fyrir, að neyzla lambakjöts mundi minnka með auknu fæðuúrvali og lögun íslenzks matarsmekks að erlendum fyrirmyndum. Einnig, að sókn á erlendan markað mundi ekki takast, því íslenzkt kjöt væri ekki samkeppnishæft.
“Óvinir íslenzkra bænda” voru þeir kallaðir, sem spáðu rétt um framvinduna. Kerfið hamaðist um á hæl og hnakka á kostnað skattgreiðenda og neytenda, en allt kom fyrir ekki. Tugum milljarða var sóað til einskis og fátækir sauðfjárbændur urðu sífellt fátækari.
Þessu ferli er ekki lokið. Þjóðin mun verða enn fráhverfari lambakjöti á næstu árum, enda eru sífellt að bætast við kynslóðir, sem aldar eru á pítsum og pöstum. Reikna má með, að neyzla lamba- og kindakjöts fari niður fyrir 15 kíló á mann á ári á allra næstu árum.
Kominn er tími til, að menn viðurkenni þessa staðreynd og hagi sér samkvæmt því. Enn fremur er kominn tími til, að menn viðurkenni, að mistekizt hefur hver tilraunin á fætur annarri til að sækja fram með þessa vöru í útlöndum, allt fram á þennan dag.
Samt er rúm fyrir sauðfjárrækt hér á landi í framtíðinni, helmingi minni framleiðslu en hún er í dag. Til þess að ekki fari allir sauðfjárbændur á höfuðið í einum pakka er brýnt að færa allan stuðning við greinina í farveg uppkaupa ríkisins á framleiðslurétti.
Slík greiðsla fyrir að hætta verður að vera háð því skilyrði, að sauðfjárbóndinn færi sig ekki yfir í aðra búvöru, sem einnig er að meira eða minna leyti á framfæri ríkisins. Stuðningurinn verður á endanum að koma að fullu fram í samdrætti í búvöruframleiðslu.
Líklega mun markaðsjafnvægi nást með um 500 sérhæfðum sauðfjárbændum. Því færri, sem þeir verða, þeim mun betri verður afkoma þeirra. Þetta er bara markaðslögmál, sem landbúnaðarkerfið hefur lengi hunzað og þar með skaðað skjólstæðinga sína.
Markaðurinn þolir því meiri sauðfjárrækt, sem hún verður fjölbreyttari. Rúm er fyrir framleiðslu lífræns lambakjöts í samræmi við fjölþjóðlega staðla. Áhugi neytenda á slíkri búvöru vex hratt með hverju árinu. En bændakerfið hefur haft horn í síðu slíkra staðla.
Í staðinn hefur kerfið reynt að búa til nýja skilgreiningu, sem kosti bændur minna, til dæmis svokallaða vistvæna framleiðslu, sem því miður nýtur hvorki fjölþjóðlegra staðla né annarrar viðurkenningar markaðarins. Slík hliðarspor hamla gegn lífrænni ræktun.
Einnig er rúm fyrir sölu lambakjöts undir vottuðum vörumerkjum tilgreindra staða eins og í frönsku rauðvíni. Vinna má sérmarkaði fyrir lambakjöt, sem ræktað er á sérstöku landssvæði við sérstakar beitaraðstæður, til dæmis Laufskálaheiðarlömb eða Svalbarðslömb.
Svigrúm til framleiðslu lambakjöts er til, en það er takmarkað, eins og svonefndir “óvinir bænda” sögðu fyrir nokkrum áratugum. Menn verða að laga sig að þessum raunveruleika og haga stefnunni þannig, að bændur verði fáir, en hafi sómasamlega afkomu.
Einnig er orðið tímabært að gera helztu “óvini bænda” að heiðursfélögum í samtökum bænda fyrir að hafa aldrei vikizt undan að segja bændum sannleikann.
Jónas Kristjánsson
DV