Herkostnaður við þétta byggð

Greinar

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þolgæði samtakanna Betri byggðar við þróun ráðagerða um 20.000 manna byggð á Reykjavíkurflugvelli og 20.000 manna byggð úti í sjó við Akurey og Engey. Viðvörunarbjöllur hringja, þegar borgarapparatið sjálft er farið að taka þátt.

Við höfum slæma reynslu af skipulagsskrifstofu borgarinnar og getuleysi pólitískra fulltrúa til að hafa stjórn á henni. Einna alvarlegast hefur verið vanmat borgarapparatsins á þörf helztu umferðaræða borgarinnar fyrir gott svigrúm og mislæg gatnamót.

Svo illa var þrengt að Miklubraut og Vesturlandsvegi, að reisa varð flóknar og dýrar götuljósabrýr við Höfðabakka og Skeiðarárvog í stað þess að geta komið þar fyrir einfaldari og ódýrari brúm með fullkomnum vegaslaufum til að tryggja viðstöðulausa umferð.

Enn vitlausari var sú ákvörðun að hætta við mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem umferðin stefnir í öngþveiti, auk þess sem mengun eykst mjög við að stöðva þarf bíla við umferðarljós, hafa þá þar í hægagangi og koma þeim á ferð aftur.

Ljóst má vera, að ekki verður reist 40.000 manna byggð vestan Snorrabrautar og Öskjuhlíðar án þess að margfalda álagið á Miklubraut, er einnig þarf að mæta þeirri aukningu, sem reynslan sýnir, að verður af öðrum ástæðum. Þessi mikla byggð er ávísun á martröð.

Dæmið gengur ekki upp nema fjórar akreinar verði í hvora átt á Miklubraut og öll gatnamót hennar verði mislæg. Og komið verði upp Fossvogsbraut fyrir vallarbyggðina fyrirhuguðu og endurbætt Sæbraut fyrir eyjabyggðina, hvor um sig með mislægum gatnamótum.

Tvöföldun íbúa Reykjavíkur vestan Elliðaáa kollvarpar fyrra mati á innviðum stofnlagna, allt frá götum yfir í vatnsæðar og skolpleiðslur. Kostnað við breytta innviði stofnkerfa samgangna og annarrar þjónustu þarf að taka með í reikningsdæmi 40.000 manna byggðar.

Óvíst er, að borgarbúar kæri sig um mikla Fossvogsbraut og mikla Sæbraut, hvora um sig með mislægum gatnamótum, ofan á núverandi þörf fyrir mislæg gatnamót við þvergötur Miklubrautar. Slíkt mundi rýra gildi búsetu í næsta nágrenni þessara gatna.

Ef taka á tillit til hagsmuna núverandi byggðar vestan Elliðaáa og reyna að hafa hemil á hljóð- og sjónmengun, verður ekki séð, að komizt verði hjá að setja umferðarholræsin nýju ofan í stokka eða göng, sem hleypir upp kostnaði við tvöföldun íbúafjöldans á svæðinu.

Menn eru að gamna sér við þéttingu byggðar í þjóðfélagi ásóknar í einbýli við aðstæður nægs landrýmis, hvort sem litið er til svæðisins milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar eða til svæðisins milli Mosfellssveitar og Borgarness. Hver er þessi þörf fyrir þéttingu?

Er ekki ódýrara að grafa göng undir Hellisheiði og bæta Árborg við höfuðborgarsvæðið? Er ekki hægt að beita draumórum um innilokaða byggð að hætti stríðshrjáðra og innimúraðra Evrópuborga einhvers staðar utan við mjótt nes hinnar gömlu Reykjavíkur?

Gott er að taka saman höndum um að losna við flugvöllinn, sem af fjárhagslegum ástæðum á hvergi heima nema á Keflavíkurvelli. En má ekki bara endurheimta óskipulagða Vatnsmýri í stað þess að reisa þar átta hæða byggð, sem er ljótust allra byggða í útlöndum?

Ekki eru nein merki þess, að þjóðin eða borgararnir sækist með vaxandi velmegnun eftir færi á að búa í þéttum röðum átta hæða kastala milli umferðarholræsa.

Jónas Kristjánsson

DV