Mann fram af manni hafa samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins lagt sig fram um að reyna að draga úr eða fresta gerð samgöngumannvirkja í Reykjavík, einkum mislægra gatnamóta, og standa í ýmiss konar þvargi þessu tengdu við borgarstjórann í Reykjavík.
Á næstsíðasta kjörtímabili mátti telja, að þetta væri bara eitt ruglið enn úr Halldóri Blöndal, sem síðan var settur af sem ráðherra. Því miður hefur komið í ljós, að arftakinn er öllu verri. Sturla Böðvarsson er þegar kominn á fulla ferð í stríð gegn Reykvíkingum.
Ekki er fótur fyrir þeirri fullyrðingu ráðherrans, að borgin sé vanbúin að hefja framkvæmdir með Vegagerðinni á þjóðbrautum í borginni. Þvælan virðist enda hafa þann eina tilgang að hlýja um hjartarætur róttækum andstæðingum Reykjavíkur í kjördæmi ráðherrans.
Smákóngar Sjálfstæðisflokksins í kjördæmum landsbyggðarinnar telja sér margir hverjir hag í að tala illa um Reykjavík og reyna að bregða fæti fyrir hagsmuni borgarinnar. Kjósendur í þessum kjördæmum kunni vel að meta auðsýnda óbeit á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki sést, að þingmenn flokksins í Reykjavík reyni að hafa hemil á róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu. Ráðherrarnir Davíð Oddsson, Geir Haarde og Björn Bjarnason láta sér fátt um finnast, enda telja þeir, að kjósendur í Reykjavík muni ekki refsa sér fyrir það.
Vanhugsað væri að telja þetta réttu leiðina að hjarta borgarbúa. Kjósendur eru að vísu lítilsigldir, en áhættusamt hlýtur þó að vera að reyna að kúga Reykvíkinga til fylgilags við flokk, sem hvað eftir annað er staðinn að róttækri andstöðu við hagsmuni borgarinnar.
Töluvert er um það utan höfuðborgarsvæðisins, jafnvel á Suðurnesjum, þar sem menn ættu að vita betur, að öfundazt sé í garð borgarinnar og borgarbúa. Til dæmis hefur Hjálmar Árnason þingmaður varið Fljótsdalsvirkjun með skítkasti í fólk á höfuðborgarsvæðinu.
Við því er að búast, að skillitlir stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum gæli við róttæklinga í röðum óbeitarmanna höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar eru það hagsmunir stórra stjórnmálaflokka, að slíkar sálnaveiðar í gruggugu vatni valdi flokknum ekki beinum skaða.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar í fúlustu alvöru að láta menn á borð við umrædda samgönguráðherra taka flokkinn í gíslingu sem baráttutæki gegn hagsmunum höfuðborgarsvæðisins, er hugsanlegt, að kjósendur manni sig upp í að taka afstöðu gegn óvildarflokki sínum.
Kjósendur kunna fyrr eða síðar að átta sig á, að atkvæði greitt Davíð, Geir og Birni í Reykjavík nýtast til að koma róttæklingum á borð við Halldór og Sturlu fyrst á þing og síðan í ráðherrastóla, er þeir nota til að nudda sér utan í þá, sem öfunda suðvesturhornið.
Stórir stjórnmálaflokkar eru dæmdir til að reyna að sigla milli skers og báru í viðkvæmum málum eins og þeirri tilfinningu sumra íbúa landsbyggðarinnar, að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi ylinn af kjötkötlunum, og taka af festu á öfundinni, sem oft fylgir þessu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur vikizt undan að hemja róttæklingana og fyrir bragðið lent í þeirri gíslingu, sem hér hefur verið rakin og sem ætti að öllu eðlilegu að leiða til þess, að kjósendur í væntanlegum þremur höfuðborgarkjördæmum hafni forsjá flokksins.
Það getur ekki endalaust verið ókeypis, að óvandaðir samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins hagi sér eins og íbúar höfuðborgarsvæðisins séu óvinaþjóð.
Jónas Kristjánsson
DV