Frumkvöðlar og kaupsýslumenn nútímans hér á landi hafa áttað sig á, að velsæld þjóðarinnar í náinni framtíð felst ekki í að framkvæma gamla drauma um álver og stórvirkjanir, heldur í að rækta menntun og hugvit þjóðarinnar á mestu framfarasviðum hvers tíma.
Dæmi um auðlindir nýrrar aldar eru hugbúnaðargerð og önnur tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni. Slíkar greinar kosta fyrst og fremst fjárfestingu í menntun og hugviti, en síður í áþreifanlegum mannvirkjum, svo sem verksmiðjum, orkuverum og stíflugörðum.
Ef þjóðfélag hyggst standast samkeppni við forustuþjóðir heimsins, verður það að unga út hæfu fólki á þenslusviðum hvers tíma. Aðrar auðlindir hverfa algerlega í skugga þessarar kröfu og gera lítið annað en að flækjast fyrir því, að þjóð komist í fararbrodd.
Mannvirki kosta gríðarlega peninga. Fjárfesting í gamaldags atvinnuvegum á borð við raforkuvinnslu og álvinnslu er gríðarleg á hvern starfsmann og gefur lítinn arð í samanburði við þær greinar, sem eru í fararbroddi efnahagsþróunar Vesturlanda á hverjum tíma.
Fjárfesting í auðlindum menntunar og hugvits kostar miklu minna á hvern starfsmann og getur gefið ótrúlegan arð, sem Íslendingar eru fyrst núna að átta sig á, að sé innan seilingar, þegar íslenzk fyrirtæki á slíkum sviðum hafa lyfzt úr engu til feiknarlegra verðmæta.
Við búum því miður við pólitísk stjórnvöld, sem eru frosin í gömlum tímum og hafa því ekki getað leikið það eftir stjórnvöldum nágrannalandanna að vísa stórvirkjunum og stóriðju til þriðja heimsins og nota sparnaðinn til að búa í haginn fyrir þekkingariðnað.
Slagurinn um Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál er síðasti slagur fortíðar og framtíðar í atvinnu- og efnahagslífi Íslands. Þar er á ferðinni gamall og úreltur draumur, sem hefur breytzt í martröð byggðastefnu, er stefnir í taprekstur á hvoru tveggja, orkuveri og stóriðju.
Stjórnvöld leggja ofurkapp á, að takmörkuðu fjármagni og lánsfjármöguleikum þjóðarinnar sé veitt í farveg martraðarinnar á Austurlandi í stað þess að snúa sér í átt til framtíðarinnar og leggja sömu peninga í hugbúnað og tölvutækni, erfðarannsóknir og líftækni.
Vandinn er auðvitað sá, að þjóðin lifir á þremur öldum í senn. Meðan hluti þjóðarinnar hefur sótt inn í 21. öldina, lifa aðrir enn á 19. öldinni. Hinir síðarnefndu sjá sér þá von bjartasta í lífinu að komast í tæri við atvinnuvegi, sem voru vaxtarbroddur 19. aldar.
Í stað þess að mennta austfirzk ungmenni til aðildar að veruleika 21. aldar eru ráðamenn nokkurra sveitarfélaga á Austurlandi að berjast fyrir því, að orku þessara ungmenna verði beint að því að skaka á venjulegu skítakaupi í bræðslupottum á Reyðarfirði.
Á sama tíma eru ýmsir aðrir foreldrar í landinu að búa börn sín undir tíma, þar sem árlegar bónusgreiðslur einar eru hærri en árslaun við bræðslupotta á Reyðarfirði. Ungmenni á höfuðborgarsvæðinu búa ekki við dragbíta á borð við sveitarstjórnir á Austfjörðum.
Hvort sem Fljótsdalsvirkjun og Reyðarál verða að veruleika eða ekki, marka þau þáttaskil í atvinnusögu okkar. Þau eru síðasti bærinn í dal fortíðarinnar, áður en við tekur nýr tími, þar sem heilabúið í mannfólkinu verður eina auðlindin, sem máli skiptir.
Þjóðin mun láta herkostnaðinn við martröðina sér að kenningu verði. En hún á enn kost á að spara sér alveg þetta morð fjár og læra samt af reynslunni.
Jónas Kristjánsson
DV