Þér var nær

Greinar

Enn einu sinni hefur nýr keppinautur á markaði orðið að lúta í lægra haldi fyrir þeim, sem fyrir var. Íslandsflug hefur hætt samkeppni við dótturfélag Flugleiða, sem gat í skjóli móðurfélagsins þolað samkeppni um verð, því að of margir flugfarþegar tóku ekki þátt í leiknum.

Þegar Íslandsflug kom til skjalanna, lækkaði verð í innanlandsflugi. Þegar það er horfið af samkeppnisleiðum, má búast við, að verð fari smám saman að hækka aftur. Fljótlega verður dýrara að fljúga innanlands en til útlanda, þar sem samkeppni er hafin á nýjan leik.

Við höfum oft séð þetta gerast. Nýir aðilar koma til skjalanna í ástandi einokunar eða fáokunar og bjóða niður verð, almenningi til hagsbóta. Gamli aðilinn notar auð sinn til að jafna verðið og bíður síðan þolinmóður eftir því, að samkeppnisaðilinn gefist upp.

Leikurinn jafnast ekki, af því að Íslendingar láta ekki nýja aðilann njóta þess, að hann leiddi inn lága verðið. Þeir fagna því, að gamla fyrirtækið þurfi að lækka verðið og halda áfram að skipta við það. Þetta leiðir til þess, að þeir fá gamla, háa verðið í hausinn aftur.

Áður hafa misheppnazt tilraunir til samkeppni í innanlandsflugi og millilandaflugi, í vöruflutningum á landi og á sjó, í tryggingum og olíuverzlun. Það stafar af því, að Íslendingar halda tryggð við kvalara sína og gera þeim kleift að sitja af sér tímabundna samkeppni.

Þar sem borgaraleg hugsun er ákveðnari en hér, svo sem í Bandaríkjunum, neita menn að gerast þrælar gamalla stórfyrirtækja. Þar tekst nýjum fyrirtæknum oft að ryðja sér til rúms með lágu verði, af því að þar flytja hlutfallslega miklu fleiri viðskipti sín en gerist hér.

Í þetta blandast byggðastefna úti á landi og þjóðleg stefna í þéttbýli. Dæmigerð er Akureyri, sem er fræg fyrir að hafna fyrirtækjum að sunnan, er flytja með sér lágt verð. Þau fá lítil viðskipti og flýja af hólmi, en Akureyringar sitja eftir með háa og heimagerða verðið.

Ísland er svo lítið hagkerfi, að óeðlilega mikill hluti verzlunar og þjónustu er á gráu svæði milli fákeppni og fáokunar, þar sem þrjú eða færri fyrirtæki skipta með sér nærri öllum markaði á hverju sviði. Fákeppni breytist í fáokun og fáokun breytist í einokun.

Á síðustu misserum hefur fákeppni í smásöluverzlun verið að breytast í fáokun. Fyrirtæki hafa sameinazt og blokkirnar hafa tekið upp samráð um verð. Þetta heftur leitt til þess, að verðbólga hefur látið á sér kræla á nýjan leik og er nú orðin tvöföld á við evrópska verðbólgu.

Stjórnvöld hafa engin tæki til að grípa inn í og gæta hagsmuna almennings. Menn verða að læra af reynslunni að bjarga sér sjálfir. Aðeins lítill hluti fólks tekur þátt í að halda uppi samkeppni og halda niðri verði með að flytja viðskipti sín til nýrra aðila með lágt verð.

Aðferðin gegn fáokun og einokun er einföld. Rómverska og brezka heimsveldið beittu henni. Hún felst í að deila og drottna, styðja þá litlu gegn hinum stóra. Ef einhver hinna litlu verður stærstur, færist aðferðin yfir á hann. Þetta er leiðin til að halda uppi virkri samkeppni.

Aðferðin felst í, að menn styðja alltaf þá, sem eru nýir og minni máttar, og hafna viðskiptum við þá, sem eru ráðandi á hverjum markaði hverju sinni. Þannig héldu Bretar jafnvægi á meginlandi Evrópu öldum saman og þannig halda neytendur uppi sívirkri samkeppni.

Íbúar Akureyrar, Vestmannaeyja, Egilsstaða og svæðanna umhverfis höfðu í hendi sér að halda uppi samkeppni í flugi, en neituðu sér um það. Þér var nær.

Jónas Kristjánsson

DV