Þær fjórar íslenzku kvikmyndir, sem mesta aðsókn hafa fengið um dagana, eru Með allt á hreinu eftir Ágúst Guðmundsson, Dalalíf eftir Þráin Bertelsson, Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson, með yfir 95.000 áhorfendur hver.
Athyglisvert er, að þessar kvikmyndir voru sáralítið styrktar af opinberu fé, fengu á núvirði rúmlega tvær milljónir króna hver að meðaltali. Þær tölur eru alger skiptimynt í samanburði við þá styrki, sem nú eru veittir og nema oft yfir tuttugu milljónum króna á mynd.
Þær myndir, sem einna minnsta aðsókn hafa hlotið, 3.000-6.000 áhorfendur, hafa einmitt fengið yfir tuttugu milljón krónur hver að meðaltali í opinberum styrkjum. Út úr þessu má lesa, að öfugt samhengi sé milli áhuga áhorfenda og úthlutunarnefnda á kvikmyndum.
Erfitt er að halda fram í alvöru, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu ómerkari kvikmyndir en Myrkrahöfðinginn, Hin helgu vé, Draumadísir og Ein stór fjölskylda. Að minnsta kosti voru gagnrýnendur sáttir við fyrrtöldu kvikmyndirnar.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir úthlutunarnefndir að ákveða, hvaða verkefni í kvikmyndagerð séu þess verðug að fá mikla styrki og hvaða verkefni séu aðeins lægstu styrkja virði. Sagan reynist úthlutunarnefndum jafnan harður dómur, þótt þær reyni að fara eftir reglum.
Niðurstaðan af þrotlausu erfiði úthlutunarnefnda og ómældu fjármagni þeirra er, að þær myndir, sem ganga bezt, mundu hafa náð endum saman án aðildar úthlutunarnefndanna, og að þær myndir, sem ganga verst, ná ekki endum saman þrátt fyrir nefndir og tapstyrki.
Nokkrum sinnum hefur verið bent á leið úr þessum vanda. Hún felst í, að úthlutunarnefndir spari sér erfiðið og afhendi áhorfendum valdið til að ákveða, hvaða myndir eigi að styrkja, svo að hér á landi séu framleiddar sem flestar myndir, er falla í kramið hjá áhorfendum.
Þannig sé líklegast, að hér á landi séu framleiddar kvikmyndir, sem þjóðin vilji fremur sjá en innfluttar kvikmyndir. Þannig sé innlendur kvikmyndaiðnaður styrktur til að halda uppi samkeppni við það vinsælasta, sem framleitt er af slíku tagi á erlendum vettvangi.
Ef menn segja, að með slíkri aðferð væri verið að styrkja lágkúru, sem félli í kramið hjá skrílnum, verða menn jafnframt að halda fram, að Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna séu lágkúra, en fyrrnefndar botnmyndir séu hins vegar göfug list.
Þar sem ekki er hægt að sjá neinn gæðamun milli kvikmynda með háa og lága styrki, er einfaldara að vísa málinu til áhorfenda, svo að kvikmyndastjórar séu hvattir til að búa til kvikmyndir, sem fólk vill sjá. Styrkjakerfið sé beinlínis notað til að ýkja lögmál markaðarins.
Aðferðin felst í að borga kvikmyndagerðarmanninum fasta krónutölu í meðgjöf með hverjum seldum aðgöngumiða. Sömu aðferð má raunar nota til að styrkja rithöfunda, tónlistarmenn, myndlistarmenn og aðra listamenn, sem selja almenningi aðgang að verkum sínum.
Það væri kvikmyndagerðarmanni mikil hvatning til góðra verka að vera öruggur um að fá í styrk 1.000 krónur ofan á hvern seldan miða. Eins væri það rithöfundi sambærileg hvatning að vera öruggur um að fá í styrk 500 krónur ofan á ritlaun af hverju seldu eintaki.
Aldrei hefur verið sýnt fram á það með rökum, að markaðsvæðing styrkjakerfa í listum hefði rýrara menningargildi en núverandi fálm úthlutunarnefnda.
Jónas Kristjánsson
DV