Í sátt við land og þjóð

Greinar

Ýmsir forustumenn í landbúnaði hafa komið auga á brýn verkefni, sem áður voru ekki hátt skrifuð í greininni. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra vill bæta hreinleikaímynd landbúnaðarins, sem hann telur hafa beðið hnekki á undanförnum mánuðum.

Ari Teitsson, formaður Bændasamtakanna, sagði á Búnaðarþingi, að landbúnaðurinn yrði að starfa í sátt við umhverfi sitt. Vandamál mengunar, jarðvegseyðingar, hormónanotkunar og fleiri þátta megi ekki skaða umhverfið og rýra traust almennings á greininni.

Sumir aðrir forustumenn eru hins vegar forstokkaðir sem fyrr. Aðalsteinn Jónsson, formaður Samtaka sauðfjárbænda, sagði í gær, að ekki væri ofbeit á hálendi Íslands og að raunar væri alls engin ofbeit í landinu. Um leið kaus hann að gagnrýna þá, sem vilja vernda villigæsir.

Þannig hafast menn ýmislegt að. Sumir reyna að byggja upp traust, sem aðrir eru að eyða á sama tíma. Fræðimenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslunnar eru sammála um, að ofbeit eigi víða þátt í gróðureyðingu og að víða þurfi að friða hálendi.

Nánar tiltekið þarf á Suðurlandi að friða hálendi Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og á Norðurlandi þarf að friða hálendi Þingeyjarsýslna, Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðar. Vísindamenn í landbúnaðargeiranum telja þessi svæði óhæf til beitar.

Mikilvægur er nýfenginn skilningur ýmissa ráðamanna í landbúnaði á, að greinin þurfi að starfa í sátt við land og þjóð. Þessum skilningi þarf að beita víðar en í friðun lands. Hann nýtist líka til að koma í veg fyrir, að stofnanir landbúnaðarins reyni að svindla á gæðakröfum.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að stofnanir landbúnaðarins reyni að skekkja hugtök til að spara vinnu og kostnað. Þannig hefur landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna lengi reynt að skilgreina lífrænan landbúnað á þann hátt, að hann nái til erfðabreyttra matvæla.

Nú hefur bandaríska ráðuneytið gefizt upp á þessu og viðurkennt, að alþjóðlegi markaðurinn hefur án afskipta ríkisvalds komið sér upp skilgreiningu á lífrænum landbúnaði, sem er grundvöllur trausts almennings og hærra markaðsverðs á búvöru, sem fær lífræna stimplinn.

Það, sem bandaríska ráðuneytinu tókst ekki, með mátt heimsveldis að baki sér, mun íslenzku ráðuneyti smáríkis ekki takast. Enginn sátt verður við þjóðina og enn síður við alþjóðlega markaðinn um séríslenzkar reglur um lífrænan eða vistvænan eða sjálfbæran landbúnað.

Vegna óbeitar á ströngum alþjóðareglum um lífræna ræktun hafa íslenzkar stofnanir landbúnaðarins viljað búa til séríslenzkar og ríkisreknar reglur, sem séu þannig lagaðar að íslenzkum aðstæðum, að það kosti litla vinnu og litla peninga að laga landbúnaðinn að þeim.

Í framhaldi af skynsamlegum yfirlýsingum ráðherra og bændaformanns á Búnaðarþingi geta stofnanir landbúnaðarins nú hætt að reyna að framleiða opinbera gæðastimpla fram hjá alþjóðareglum og viðurkennt alþjóðareglur eins og bandaríska ráðneytið hefur gert.

Næsta ljóst má vera, að aldrei fæst nein lífræn, vistvæn eða sjálfbær vottun á lambakjöti, sem framleitt er við aðstæður ofbeitar. Vottanir um slíkt á vegum ríkisstofnunar munu aldrei öðlast það traust, sem ráðherra og bændaformaður segjast vilja afla landbúnaðinum.

Þegar topparnir eru farnir að skilja nauðsyn þess, að greinin starfi í sátt við land og þjóð, er stigið fyrsta skrefið í átt til skynsamlegs landbúnaðar á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV